Sjónvarpsstöðin Cartoon Network hætti við að láta tvo homma í þættinum Clarence kyssast á munninn og lét þá kyssa kinnar hvors annars í staðinn. Þetta staðfesti Spencer Rothbell, einn af handritshöfundum þáttarins, á Twitter.
„Karakterarnir áttu upprunalega að kyssast á munninn,“ sagði hann spurður út í hversu erfitt það hafi verið að koma samkynhneigðum karakterum að í þættinum.
Hann hefur nú breytt friðhelgisstillingunum á síðunni sinni og lokað á þá sem hann hefur ekki samþykkt sem fylgjendur.
Cartoon Network hefur ekki sent frá sér yfirlýsingu um málið og það er því óvíst hvers vegna stöðin breytti kossinum. Rothbell er þó á því að þetta hafi aldrei átt að vera neitt mál.
„Þetta voru svo ómerkilegar breytingar á atriðinu en það sem eftir stóð er þó skárra en ekkert,“ sagði hann seinna á Tumblr-síðu sinni.
„Kannski verður einhvern tíma hægt að vera með samkynhneigða karaktera án þess að það sé eitthvað stórmál.“
Fylgdu Nútímanum á Facebook og þú missir ekki af neinu.