Grínistinn og spjallþáttastjórnandinn Chelsea Handler er ekki ánægð með kollega sína Louis C.K. og Aziz Ansari. Þeir sneru aftur á svið á dögunum og fluttu uppistand og Chelsea segir í samtali við Huffington Post að þeir hafi misst af tækifærinu til að gera það eina sem þeir þurftu að gera.
Louis C.K. og Aziz Ansari voru báðir sakaðir um að áreita konur í kjölfarið á #metoo-byltingunni. Louis sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann viðurkenndi brot sín og sagðist sjá eftir þeim. Aziz sendi einnig frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagðist ekki hafa áttað sig á að um áreitni hafi verið að ræða.
Chelsea Handler segir þá þurfa að tala um það sem gerðist. „Fólk vill tala um það,“ segir hún.
Það er ekki hægt að hunsa þessi mál og sópa þeim undir teppið. Maður þarf að tala um hvað maður lærði, hvaðan maður kemur og hvar maður er staddur í dag.
Chelsea segir hluta af vandamálinu vera að þeir snúi aftur og láti eins og ekkert hafi í skorist. „Þetta snýst um að taka ábyrgð á gjörðum sínum,“ segir hún.