Grínstinn Chris Rock hætti að skemmta í háskólum vegna íhaldssemi nemendanna sem hneyksluðust á öllu.
Rock var spurður í viðtali á dögunum hvað honum fannst um mótmæli nemenda í Berkeley-háskóla, sem vildu láta meina Bill Maher að flytja fyrirlestur í skólanum vegna ummæla hans um múslima.
„Ég elska Bill en ég er hættur að skemmta í háskólum. Nemendurnir eru allt of íhaldssamir,“ sagði Rock.
Spurður hvort þeir væru íhaldssamir í pólitík sagði Rock að svo væri ekki.
Þetta er íhaldssemi í viðhorfum til samfélagsins og vilji til að móðga engan. Menningin sem þau ólust upp við snerist meðal annars um að telja ekki stig í íþróttum vegna þess að enginn mátti tapa. Svo hunsa þau algjörlega kynþætti. Það má ekki segja: „svarti strákurinn þarna.“ Nei. Það verður að vera „Gaurinn í rauðu skónum“. Það má ekki einu sinni móðga þegar maður er að fara að móðga.
Spurður hvenær hann fór að taka eftir þessu segir hann að um átta ár séu síðan.
„Allt í einu var þetta ekki eins gaman og áður. Ég talaði um þetta við George Carlin áður en hann lést og hann sagði nákvæmlega það sama.“
https://www.youtube.com/watch?v=v3HPF92NhrE