Eigandi gíraffans úr Costco hefur stigið fram. Hann heitir Gunnar Páll Tryggvason og frumsýndi gíraffann í garðveislu í Hlíðunum í gærkvöldi þar sem haldið var upp á fertugsafmæli hans og fimmtán ára brúðkaupsafmæli hans og eiginkonu hans. Þetta kemur fram á Vísi.
Risavaxinn fíll og gíraffi í Costco hafa vakið mikla athygli eftir að stórverslunin opnaði á dögunum DV greindi frá því í gær að gíraffinn væri seldur en fíllinn er enn þá á sínum stað í Kauptúni.
Í frétt Vísis segist Gunnar hafa samið við Costco um heimsendingu á gíraffanum en þegar veislan hófst bólaði ekkert á honum. „Ég ætlaði að vera búinn að koma honum fyrir áður en partýið byrjaði en það tókst nú ekki,“ segir Gunnar á Vísi. „Það varð því smá „entrance“ þegar gíraffinn kom í miðri veislu. Það kom bros á alla og gekk vonum framar.“
Jón Jónsson mætti í partíið og fékk að sjálfsögðu mynd af sér með gripnum
Fann hann #costcogiraffinn pic.twitter.com/XubG28SOAE
— Jón Jónsson (@jonjonssonmusic) June 4, 2017
Gunnar segir á Vísi að kaupin á gíraffanum hafi verið skyndiákvörðun. „Maður hafði séð þessa tignarlegu skepnu í þessari köldu vöruskemmu í Garðabæ og ég var að halda garðpartý þar sem mikið stóð til,“ segir hann á Vísi.
Hann viðurkennir að um talsverða fjárfestingu sé að ræða, enda kostaði gíraffinn hátt í 400 þúsund krónur. „Ég er reyndar þegar búinn að fá einhver fimm tilboð í að leigja eða kaupa hann. Ég gæti því mögulega komið út í plús,“ segir Gunnar á Vísi.