Costco-gíraffinn frægi sem Gunnar Páll Tryggvason, fjármálaráðgjafi, keypti í sumar stóð af sér lægðina sem gekk yfir landið í gær. Gunnar segir að þó svo að gíraffinn sé langt frá heimahögum þá hafi hann staðið af sér íslenska veturinn hingað til.
Sjá einnig: Costco-gíraffinn birtist óvænt í fertugsafmæli í Hlíðunum: „Það kom bros á alla“
Heitir pottar og trampólin tókust á loft í veðurofsanum í gær en gíraffinn frægi lét vindinn ekki á sig fá. „Hann stendur keikur á sínum stað og þó hann sé kannski ekki í sínu náttúrlega umhverfi hefur hann staðið af sér íslenska veturinn hingað til,“ segir Gunnar í samtali við Nútímann.
Veðurstofa Ísland hefur varað við því að fleiri lægðir fari yfir landið á næstu dögum og von sé á næsta hvelli á fimmtudagskvöld. Gunnar hefur engar áhyggjur af því. „Nei nei hann stendur þetta af sér. Ég festi hann vel niður fyrir haustið og hann ætti ekki að fara neitt,“ segir Gunnar.