Í gær fengu foreldrar og forráðamenn barna í Dalaskóla orðsendingu frá skólastjóra grunnskólans þar sem varað var við dæmdum kynferðisbrotamanni sem að hans sögn hafi gert sér dælt við 13 ára drengi í Dalslaug.
„Jón Sverrir hafði margsinnis munnmök við piltinn auk þess sem hann fékk drenginn til að hafa við sig endaþarmsmök“
Maðurinn er sagður mæta á sama tíma og skólasund fer fram og hafi í flest þau skipti gefið sig á tal við drengina í einum af heitum pottum sundlaugarinnar. Vísir greindi fyrst frá. Ekki fylgdi þeirri frétt hver maðurinn væri en hann var sagður hafa fengið tvo þunga dóma – annarsvegar fyrir gróft kynferðisbrot gegn einhverfum dreng og hinsvegar fyrir að hafa í fórum sínum gríðarlegt magn af barnaklámi.
Nýtti sér andlega annmarka
DV greinir svo frá því í dag hvaða maður þetta er. Hann heitir Jón Sverrir Bragason og var dæmdur árið 2009 í fjögurra ára fangelsi gegn dreng með ódæmigerða einhverfu. DV greindi ítarlega frá málinu á sínum tíma en þar kemur meðal annar fram að Jón Sverrir hafi verið kunningi föður drengsins og að hann hafi misnotað hann yfir tveggja ára skeið.
„Brotin áttu sér stað þegar drengurinn var þrettán til fimmtán ára, á árunum 2006 til 2008. Jón Sverrir var kunningi föður drengsins. Jón Sverrir hafði margsinnis munnmök við piltinn auk þess sem hann fékk drenginn til að hafa við sig endaþarmsmök. Jón Sverrir nýtti sér andlega annmarka drengsins og lokkaði hann til kynlífsathafnanna með því að gefa honum tölvuleiki og peninga,“ segir í frétt DV frá árinu 2009.
Þá kemur fram í frétt DV að Jón Sverrir hlaut einnig yfir tveggja ára fangelsi fyrir að hafa í fórum sínum gífurlega mikið magn af barnaníðsefni. Var hann gripinn með efnið í Leifsstöð árið 2014.
Með tímasetningar á hreinu
Jón Sverrir er 69 ára gamall en hann hefur vanið komur sínar í sundlaugina síðan í janúar. Hann er sagður hafa spjallað við drengina bæði fyrir og eftir skólasund í Dalslaug svo mánuðum skiptir en samkvæmt upplýsingum frá skólayfirvöldum þá virðist Jón Sverrir hafa tímasetningar á skólasundinu alveg á hreinu.
Þá er rætt við móður drengs í frétt DV en hún segir að fjölskyldunni sé eðlilega brugðið – þau hafi frétt af þessu fyrst þegar orðsendingin barst frá skólastjóra Dalaskóla.
Konan greinir einnig frá því að Jón Sverrir hafi verið staðinn að því að fara inn í kvennaklefann í Dalslaug á skólasundtíma og horfa þar á naktar 13 ára stúlkur.
„Hann fór ekki út fyrr en starfsmaður kom að honum. Dóttir einnar vinkonu minnar greindi móður sinni frá þessu, hún sagði mér að dóttir hennar hefði verið nakin og hún hafi reynt að fela sig á bak við eina vinkonu sína,“ segir hún í samtali við DV.