Ung móðir sem Nútíminn ræddi við í dag segist hafa notað málmleitartæki á barnið sitt áður en það fór á skemmtun í félagsmiðstöðinni í bæjarfélaginu þar sem þau búa. Það hafi hún gert þar sem sonur hennar hafi verið staðinn að því ítrekað að bera á sér hníf.
„Honum fannst þetta nú bara fyndið og hélt að ég væri að djóka í honum en það runnu á hann tvær grímur þegar ég fann veipið sem var kyrfilega falið í nærbuxunum hans.“
„Ég fann ekki hníf á honum en tækið fann samt veip sem hann á ekki að vera með á sér. Þannig að tækið sannaði gildið sitt en það er samt ótrúlegt að við séum eða ég sé komin á þennan stað að þurfa að nota málmleitartæki á barnið mitt. Ég veit bara ekki hvað ég á annað að gera,“ segir konan sem ekki vildi koma fram undir nafni en það ákvað hún til þess að verja barnið sitt sem hefur þurft að þola einelti í skólanum sínum.
Málmleitartæki á böllum ungmenna á Íslandi
Gríðarleg umræða hefur orðið í samfélaginu um hnífaburð barna og ungmenna í kjölfar stunguárásar á Menningarnótt þar sem ung stúlka lét lífið. Ungur drengur situr í gæsluvarðhaldi vegna þess en í kjölfarið hefur orðið mikil vakning um þetta alvarlega vandamál sem virðist hafa stækkað og stækkað undanfarin misseri.
Í umræðunni hafa komið fram hugmyndir um notkun málmleitartækja en slíkt verður staðreynd á flestum framhaldsskólaböllum á Íslandi í framtíðinni en slík tæki verða til að mynda notuð á busaballi Menntaskólans í Reykjavík sem fer fram í kvöld. Móðirin sem Nútíminn ræddi við segir umræðuna ekki hafa farið framhjá sér og þegar hún áttaði sig á því að hún hafi keypt slíkt tæki til gagns og gaman í leikfangabúð hafi hún ákveðið að nota það í gærkvöldi.
Tækið keypti hún á vefsíðunni Coolshop.is en þar er hægt að kaupa nokkrar tegundir málmleitartækja sem þó er ætlað að nota, eins og áður hefur komið fram, til gagns og gaman og eru þau alls ekki ætluð til leita á hnífum eða öðrum vopnum – svo það sé tekið fram sérstaklega.
Keypti tækið fyrir „fjársjóðsleit“
„Ég keypti þetta tæki fyrir yngsta barnið mitt og það átti nú bara að nota í leit að „fjársjóðum“ en mig datt í hug að prufa það áður en sá elsti fór á ball í gær. Þau virðast virka þó svo að þetta sé nú ekki það hátæknilegasta sem til er – ég átta mig á því. Ég gerði þetta líka bara til þess að reyna að láta hann átta sig á því hversu alvarlegt þetta væri og að svona tæki yrði raunveruleikinn hans á böllum framhaldsskóla í framtíðinni.“
En hvernig tók hann í þetta?
„Honum fannst þetta nú bara fyndið og hélt að ég væri að djóka í honum en það runnu á hann tvær grímur þegar ég fann veipið sem var kyrfilega falið í nærbuxunum hans. Hann fór því hvorki með veip né hníf á grunnskólaballið í gær,“ segir móðirin sem finnst ekkert að því að öryggisgæsla á böllum efri deilda grunnskóla og í framhaldsskólum landsins sé efld til muna – og þá til dæmis með tækjum sem finna auðveldlega hnífa og önnur vopn.
„Nei. Ég vona bara að þessi vitundarvakning og þær forvarnir sem ríkisstjórnin hyggst ráðast í verði til þess að við náum að snúa þessari þróun við. Þetta er myrkur og ömurlegur raunveruleiki sem við búum við í dag. Það er bara staðeynd. Því miður.“