Í lokaþætti Sítengd- veröld samfélagsmiðla, á RÚV á sunnudaginn, verður rætt um skjáfíkn. Rætt er við sálfræðinginn Eyjólf Örn Jónsson sem hefur sérhæft sig í meðhöndlun fólks sem haldið er tölvu- eða skjáfíkn. Mikil aukning hefur verið á þeim vanda meðal íslenskra barna og ungmenna með tilkomu samfélagsmiðla.
Sjá einnig: Sjónvarpsþátturinn Sítengd fékk Dóra DNA til að yfirgefa Instagram: „Fastur í vefnum. Hjálp“
Eyjólfur segir í þættinum að mjög margir krakkar komi til hans sem hafa verið byrjaðir á vefum á borð við Youtube í kringum sex ára aldur.
„Miðillinn verður náttúrulega bara eins og annar útlimur, önnur hönd. Þetta verður eitthvað sem fer að skipta gríðarlega miklu máli,“ segir hann.
Hann segir að dæmi séu um að krakkar mæti ekki í skólann þar sem þeir geti ekki hugsað sér að fara frá „miðlinum sínum“. Þá segir hann að endurgjöf á samfélagsmiðlum geti haft mjög slæmar afleiðingar fyrir börn. Ef myndbönd eða myndir fá ekki nóg mörg like geti það haft slæm áhrif á líðan þeirra.
Sítengd – veröld samfélagsmiðla er í umsjón þeirra Ragnhildar Steinunnar Jónsdóttur og Viktoríu Hermannsdóttur. Í þættinum er rýnt í heim samfélagsmiðla og hvaða áhrif miðlarnir hafa á líf okkar. Nánar verður rætt við Eyjólf Örn í þættinum á sunnudag klukkan 20:35 á RÚV.