Gert er ráð fyrir að það kosti 745 krónur á dag að fæða hvern einstakling, í frumvarpi fjármálaráðherra um breytingar á virðisaukaskatti. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að hver máltíð á einstakling kosti 248 kr. Þetta kemur fram á Vísi. Tölurnar eru byggðar á neyslukönnun Hagstofu Íslands.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið er sjálft ósammála tölunum í frumvarpinu sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra leggur fram, ef miðað er við dagpeninga ríkisstarfsmanna á ferðalögum innanlands.
Þar er miðað við að fæði hvern heilan dag kosti 10.800 krónur. Miðað er við að fæði í hálfan dag kosti 5.400 krónur.
Þessar tölur má finna á vef Fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Semsagt: Frumvarp fjármálaráðherra gerir ráð fyrir að matur fyrir einn kosti 745 krónur á dag — en ríkið greiðir 10.800 krónur í dagpeninga fyrir mat.
Margir hafa gagnrýnt tölurnar sem koma fram í frumvarpi fjármálaráðherra. Á Twitter er til að mynda notað kassamerkið #250kr til að koma gagnrýni á framfæri.
Þá hefur verið stofnuð síða á Facebook þar sem hækkun á matarskatti er mótmælt.
Loks er Bryndís Loftsdóttir, húsmóðir og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, ósammála tölunum sem lagðar eru til grundvallar í frumvarpinu. Í samtali við Vísi segir hún það nokkuð ljóst að boðuð einföldun muni ekki þýða lægri útgjöld fyrir almenning.
Matvæli og aðrar vörur sem nú bera sjö prósent virðisaukaskatt munu samviskusamlega hækka í verði í takt við hækkun á virðisauka og að auki um nokkrar krónur og tíkalla umfram það.