Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, útilokar meirihlutasamstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Þetta kom fram í þættinum Sprengisandur á Stöð 2 í morgun.
„Mér finnst það svolítið hafa kristallast að við deilum framtíðarsýn fyrir Reykjavík með mjög mörgum flokkum sem voru að bjóða fram í borgarstjórn en Sjálfstæðisflokkurinn er ekki einn af þeim,“ sagði Dagur á Sprengisandi.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk átt menn kjörna í borgarstjórnarkosningunum í gær en Samfylkingin sjö. Viðreisn og Píratar fá tvo borgarfulltrúa hvor en fjórir flokkar fá einn borgarfulltrúa hver. Það eru Sósíalistaflokkur Íslands, Miðflokkurinn, Vinstri græn og Flokkur fólksins.
Fimmtán konur taka sæti í nýrri borgarstjórn og átta karlar en tólf borgarfulltrúa þarf til að mynda meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur.