Danska tryggingafélagið Tryg hyggst endurgreiða milljón viðskiptavinum sínum 750 milljónir danskra króna vegna góðrar afkomu á síðasta ári. Það eru um 14 milljarða íslenskra króna.
Í frétt TV2 um málið kemur fram að upphæðin samsvari 8 prósent af iðgjöldum síðasta árs. TryghedsGruppen, sem rekur Tryg, hagnaðist um 1,9 milljarða danskra króna, um 36 milljarða íslenskra króna á síðasta ári.
Ásamt því að endurgreiða viðskiptavinum sínum 750 milljónir danskra króna hyggst félagið gefa 550 milljónir danskra króna, um 10 milljarða íslenskra króna, til samtaka sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni.
Á Íslandi hafa þrjú tryggingafélög kynnt fyrirætlanir um samtals 8,5 milljarða króna arðgreiðslur til eigenda sinna á næstu dögum. FÍB, Félag íslenskra bifreiðaeigenda, hefur sent Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra áskorun um að grípa tafarlaust til aðgerða til að stöðva arðgreiðslurnar.
Í tilkynningu frá FÍB segir að arðgreiðslurnar sem tryggingafélögin ætli að borga út „komi úr bótasjóðum sem félögin hafa safnað með uppsprengdum iðgjöldum af ofáætluðum tjónum“.