Fyrsti þáttur í 26. þáttaröð af Simpsons-fjölskyldunni var sýndur vestanhafs í gær. Framleiðendur þáttanna höfðu látið hafa eftir sér að íbúi í Springfield myndi deyja og aðdáendur höfðu velt fyrir sér hver það yrði.
Ef þú vilt ekki vita hver dó skaltu ekki halda áfram að lesa.
Í staðinn geturðu horft á þetta innslag þar sem John Oliver pakkar bandarískum stjórnvöldum saman. Eða skoðað hvað kemur inn á Netflix í október.
—
Margir bjuggust við að trúðurinn Krusty myndi láta lífið í fyrsta þættinum þar sem hann heitir Clown in Dumps. Það var hins vegar faðir hans, rabbíninn Hyman Krustofski, sem lést eftir að aðeins átta mínútur höfðu liðið af þættinum.
Grínistarnir Sarah Silverman og Jeff Ross koma fram í þættinum og grilla Krusty á svokallaðri „Roast“-sýningu.
Framleiðandinn Al Jean sagði í viðtali áður en þátturinn var sýndur að of mikið hafi verið gert úr væntanlegum dauða persónu í Springfield. „Ég vildi hafa það á hreinu að við ætluðum að reyna að gera tilfinningaríkan þátt,“ sagði hann.