Tónlistarmaðurinn Davíð Berndsen öðlaðist óvænt frægð í Suður-Ameríku fyrir viku síðan þegar YouTube-bloggari frá Argentínu fjallaði um hann og myndband hans við lagið Supertime.
Myndbandið var sett inn á YouTube fyrir sjö árum, eða í ágúst 2009 og hefur verið horft á það oftar en milljón sinnum. Á síðastliðnum sjö dögum hefur verið horft á það 300 þúsund sinnum í Suður-Ameríku.
Bloggarinn Dross Rotzank tók saman lista yfir sjö tónlistarmyndbönd með hryllingsþema og er myndband Davíðs númer sex á listanum. Segir bloggarinn Davíð vera hæfileikaríkan og honum takist að nota svartan húmor en vera samt sem áður litríkur og fjörugur.
Davíð segir í samtali við Nútímann að í þessari viku hafi verið skrifaðar athugasemdir við myndskeiðið á fimm mínútna fresti á spænsku.
Það er komnar tvö þúsund athugasemdir síðan hann deildi þessu. Þetta hefur líka þær afleiðingar að fólk fer að skoða hin myndböndin.
Hann segir að það sé mjög skemmtilegt að sjá hvar fólk er að horfa á myndskeiðið í heiminum. Oftast hefur verið horft á myndbandið í Mexíkó og Argentínu.
Í byrjun myndbandsins við Supertime hefur bíll hafnað á hvolfi í vegkanti og er nokkuð lagt upp úr blóði. „Ég var mjög smeykur við þetta fyrst, þegar strákarnir vildu hafa þetta svona blóðugt. Svo hefur myndbandið hjálpað mjög mikið til við að koma tónlistinni á framfæri, þetta hefur haft mikil áhrif á ferilinn,“ segir Davíð.
„Næsta skref er að hoppa upp í flugvél og fara til Mexíkó. Og vera þar í eitt til tvö ár,“ segir Davíð og hlær. Það verður þó ekki raunin þar sem hann vinnur að nýrri plötu sem hann vonast til að ljúka við á þessu ári.