Davíð Kristinsson hefur starfað sem einkaþjálfari í 18 ár og sérmenntað sig sem næringar- og lífsstílsþjálfari. Hann segir segir hrekkjavökuna á Íslandi ekki þurfa að snúast um óhollan mat og nammi eins og þróunin hefur verið hér á landi. Hann bendir á að á Íslandi séu allt of margir dagar þar sem við leyfum okkur að borða óholla fæðu.
„Þetta er auðvitað bara auka öskudagur og í raun er þetta komið út í vitleysu á stöðum eins og Suðurnesjum þar sem gengið er í hús fyrir nammi eins og tíðkast í Bandaríkjunum,“ segir Davíð í samtali við Nútímann. Í Reykjavík mátti einnig víða sjá börn ganga í hús í gærkvöldi.
Hann bendir á að hér á landi séu komnir allt of margir dagar þar sem fólk leyfir sér allt. „Ég tók saman hvað það eru margir dagar á ári sem við höfum til að leyfa okkur og komst að tölunni 100 með öllum veislum, jólum og öðrum hátíðsdögum. Það er vel hægt að bæta hrekkjavökunni við, það þarf bara gera það skynsamlega og jafnvel draga úr öðrum dögum í staðinn,“ segir Davíð.
Davíð segir að á heimilum þar sem hollt matarræði sé grunnurinn þurfi ekki að hafa áhyggjur af einum degi. „Þetta veltur alltaf á foreldrum og hvaða reglur eru um nammi á heimilinu.“
Hver Íslendingur borðar 80 kíló af hvítum sykri á ári sem er auðvitað allt of mikið
Hann áréttar það að auðvitað hafi hann ekkert á móti hrekkjavökunni sjálfri en hún þurfi alls ekki að snúast um óhollustu. „ Á mínu heimili er hrekkjavakan virkilega skemmtileg og hrekkjavökuböll eru vinsæl hjá mínum stelpum. Hinsvegar er ekkert allt vaðandi í nammi og óhollustu þar. Hrekkjavakan er svöl ef hún er í hollari kantinum “ segir Davíð að lokum.