Auglýsing

Deilur tveggja glæpahópa harðna: Albönsk glæpaklíka vill kaupa skotvopn

Átökin í undirheimum Reykjavíkur verða umfangsmeiri með hverjum degi sem líður en samkvæmt heimildum Nútímans hafa albanskir glæpamenn, sem búsettir eru á Íslandi, leitað að skotvopni til sölu á svarta markaðnum undanfarna daga. Sú leit er talin tengjast þeim átökum sem meðal annars áttu sér stað á Litla-Hrauni í gær þegar albanskur karlmaður með sænskan ríkisborgararétt var stunginn sjö sinnum af Íslendingi sem afplánar átta ára dóm vegna skotárásar í miðbæ Reykjavíkur.

„Albanska mafían á svo gott sem kannabismarkaðinn hér á Íslandi“

Nútíminn greindi frá árásinni í gær og fékk upplýsingar um það hverjir það voru sem áttu hlut að máli. Hægt er að lesa um hana hér.

Þá herma sömu heimildir að stunguárásin í Grafarvogi í gærkvöldi sé enn ein hefndaraðgerðin í þessum átökum en fjórir eru í haldi lögreglu vegna málsins sem ekki vill gefa upp hvort málin tengjast. Nútíminn hefur hinsvegar fengið það staðfest frá mönnum sem þekkja til. Þá tengjast öll málin skotárás í Úlfarsárdal í byrjun mánaðarins en það var einmitt einn af þeim sem hleypti af skoti í þeirri árás sem var svo stunginn á Litla-Hrauni í gær.

Átökin virðast því vera að harðna ansi hressilega. Erfitt er að verða sér úti um skotvopn á Íslandi, sem betur fer, en fyrir tæpu ári síðan var það mjög einfalt – skotvopnin voru seld manna á milli í gegnum lokaða hópa á samskiptaforritinu Telegram. Svo virðist sem að rannsóknir lögreglu og húsleitir hennar hafi orðið til þess að menn halda að sér höndum og hefur skotvopnamarkaðurinn bókstaflega hrunið í kjölfarið. Búast má við því að glæpaklíkur fari í sérstök innbrot til þess að stela skotvopnum og vill því Nútíminn beina því til byssueigenda að hafa skotvopnin kyrfilega læst í þar til gerðum skápum.

Tólf ára börn með hnífa

„Albanska mafían á svo gott sem kannabismarkaðinn hér á Íslandi en þeir hafa samt ekki náð stórri markaðshlutdeild í sölu á amfetamíni og kókaíni – það er í langflestum tilfellum í höndum Íslendinga. Kannabismarkaðurinn er hinsvegar risastór hér á Íslandi og það má ætla að mafían sé að græða alveg rosalega bara á því að selja gras,“ segir heimildarmaður Nútímans sem ekki vildi koma fram undir nafni – skiljanlega í ljósi alls þess sem nú gengur á.

Nútíminn hefur sent fyrirspurn til Tollstjórans í Reykjavík varðandi ólöglegan innflutning á skotvopnum og er nú beðið eftir svörum.



„Þetta ástand er orðið alveg rosalegt. Það eru börn niður í 12 ára aldur að bera hnífa í dag og við virðumst stefna ansi hratt í sama ástand og er í Bretlandi. Þar er verið að stinga mann og annan á hverjum degi,“ segir heimildarmaður Nútímans innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þeir sem hafa upplýsingar um þessar deilur og vilja koma þeim á framfæri er hægt að hafa samband við okkur á Nútímanum með því að senda tölvupóst á ritstjorn@nutiminn.is.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing