Auglýsing

Dómsmálaráðherra hefur engan áhuga á að fylgja lögum: „Faðir drengjanna hefur ekki viljað koma fram í fjölmiðlum til að vernda börnin sín“

„Ég hef óskað eftir því að hitta bæði fyrrum og núverandi dómsmálaráðherra til að fara yfir þetta mál en það virðist enginn áhugi á því. Þá sætir það furðu að ráðherra skuli ekki spyrja sig afhverju dómsúrskurðum hér á landi sé ekki framfylgt betur en þetta,“ segir Leifur Runólfsson, lögmaður föðurs drengjanna sem Edda Björk Arnardóttir rændi í Noregi og flaug ólöglega með hingað til lands í einkaflugvél árið 2022.

Málið hefur vakið gríðarlega athygli hér á landi og ekki síst í Noregi þar sem fjölskyldan bjó áður en Edda Björk nam drengina þrjá á brott í þaulskipulagðri aðgerð. Upp kom þó risastórt vandamál í þessari aðgerð Eddu Bjarkar því hún hafði gert ráð fyrir því að allir drengirnir væru í skólanum og því hægt að ræna þeim öllum í einu: „Hún sendi mér tölvupóst til þess að ganga úr skugga um að strákarnir væru í skólanum. Sagði að það væri einhver sem ætlaði að koma með afmælisgjafir handa strákunum og ég sagði henni hversu lengi þeir væru í skólanum og hversu lengi við ætluðum að vera heima þann daginn,“ sagði faðirinn í viðtali við norska miðilinn Nettavisen.

Plataði föður drengjanna til að ræna þeim yngsta

Yngsti drengurinn var þó ekki í skólanum þennan dag. Hann var veikur heima með föður sínum. Tók þá Edda Björk upp á því að ljúga að barnsföður sínum um að einn drengja þeirra væri niður við höfn að hoppa á milli báta: „Gættu hans, hann kann ekki að synda,“ á hún að hafa sent barnsföður sínum. Það gerði hún til þess að lokka föðurinn af heimilinu svo hægt væri að ræna þeim yngsta sem er 9 ára gamall. Hún skildi eldri drengina tvo, sem eru tvíburar, eftir á skyndibitastað í suðausturhluta Noregs og segist hafa brunað á bíl að heimilinu og tekið þann yngsta með sér áður en hún svo sótti hin börnin á skyndibitastaðinn og hélt út á flugvöll þar sem einkaflugvél beið þeirra.

„…drengurinn var öskrandi og grátandi er hann var numinn á brott“

Haft var samband við norsku lögregluna um leið og upp komst um barnsránin sem brást skjótt við en náði ekki að hafa hendur í hári Eddu Bjarkar.

„Móðir tók þessa drengi án heimildar og flaug með þá ólöglega í einkaþotu frá Noregi til Íslands. Einhver aðili á vegum móður fór inn á heimili föðurs til að sækja yngsta drenginn, drengurinn var öskrandi og grátandi er hann var numinn á brott,“ segir Leifur og bætir við að öll aðgerðin hafi verið ólögleg samkvæmt lögum beggja landa. Edda Björk hafi verið kærð vegna þessa þáttar málsins og þá skilst lögmanninum að ákæruvaldið í Noregi hafi gefið út ákæru á hendur henni vegna þess.

„Ljóst er að móðirin kom ekki ein að þessari skipulagningu eða fjármögnun á þessari atburðarrás og er með ólíkindum að aðrir hafi sloppið við ákærur,“ segir Leifur og bætir við: „Þá er alveg ljóst að staðhæfingar um að drengirnir hafi farið sjálfviljugir frá Noregi stenst ekki.“

Skjáskot/Youtube

Segir Eddu Björk aðeins huga að sínum eigin hagsmunum

„Á árinu 2019 fóru börnin í umgengni til móður. Í kjölfarið hélt móðir börnunum með ólögmætum hætti, þ.e. hún neitaði að skila þeim til föðurs. Í kjölfarið hófst hið fyrra afhendingarmál, sem að faðir vann á öllum dómstigum þá sem nú,“ segir Leifur og greinir frá því að fyrir athæfið hafi Edda Björk verið dæmd til sex mánaða óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingu fyrir brot á 261. grein norsku hegningarlaganna. Íslensk stjórnvöld hafi samþykkt að Edda Björk gæti afplánað refsinguna hér á landi en hún hafi tekið hana út á skilorði: „…þrátt fyrir að dómurinn hafi verið óskilorðsbundinn. Þá hafa norsk stjórnvöld óskað eftir því á ný að hún verði framseld til Noregs, núna vegna ránsins á drengjunum,“ segir Leifur.

Skjáskot/Youtube

En á meðan Edda Björk hefur verið ófeimin við að koma fram í fjölmiðlum undir nafni að þá hefur faðir þeirra ekki viljað það. Nútíminn vildi vita hvers vegna það væri?

„Börnin þykja að sjálfsögðu vænt um báða foreldra sína en foreldrar þurfa að vera góðar fyrirmyndir“

„Faðir hefur ekki viljað koma fram í fjölmiðlum til að vernda börn sín. Það er móðir sem hefur viljað hlaupa með þetta mál ítrekað í fjölmiðla og hefur hún þá ávallt verið að huga að sínum eiginhagsmunum en ekki að hagsmunum barnanna. Það eru ekki hagsmunir barnanna að ræða þetta mál í fjölmiðlum, né er það hagsmunir barnanna að þurfa að lesa hvað annað foreldrið hefur að segja um hitt foreldrið í fjölmiðlum. Börnin þykja að sjálfsögðu vænt um báða foreldra sína en foreldrar þurfa að vera góðar fyrirmyndir, meðal annars með því að fara eftir niðurstöðum dómstóla. Það er einlæg ósk skjólstæðings míns að almenningur virði friðhelgi barnanna og treysti dómstólum í þessu máli,“ segir Leifur.

Faðir drengjanna stöðvaði aðfaragerðina

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu réðst í aðfarargerð á heimili Eddu Bjarkar þann 25. október síðastliðinn en í þeirri aðgerð var Edda Björk og stjúpfaðir drengjanna, sem er vellauður viðskiptamaður og talinn hafa kostað brottnámið, handtekin. Málið vakti mikla athygli en um tuttugu lögreglumenn á vegum sýslumannsins mættu á vettvang. Hætt var við aðgerðina þar sem fjölda fólks dreif að, meðal annars frá samtökunum Líf án ofbeldis, sem reyndu að stöðva aðgerðina og gerðu hróp að drengjunum og föður þeirra. Með aðgerðinni átti að flytja drengina til föður síns í Noregi. En afhverju var aðgerðin stöðvuð?

„Aðfaragerðinni var frestað að beiðni föðurs sökum þess að fjöldi fólks dreif að heimili móður og voru með skrílslæti á staðnum. Faðir mat það sem svo að aðstæður væru óboðlegar og vildi hann hlífa börnunum við þessu áreiti. Aðfaragerðin getur í raun hafist á nýjan leik hvenær sem er,“ segir Leifur en tekur fram að þar sem sýslumaður gerir þá kröfu að faðir drengjanna sé á staðnum þegar aðgerðin fer fram að þá sé það mjög erfitt.

Skjáskot úr myndskeiði sem samtökin Líf án ofbeldis birtu á Facebook þar sem meðlimir þess gerðu hróp að drengjunum og föður þeirra. Skjáskot/Facebook

„Faðir hefur ítrekað komið til landsins en í hvert sinn hefur móðir farið í felur með drengina og grunur hefur vaknað um að hún hafi falið drengina í fleiri en einu sýslumannsumdæmi, sem sagt splittað þeim upp, sem gerir ferlið enn flóknara. Ekki er hægt að ætlast til þess að faðir þurfi að dvelja mánuðum saman í leit að drengjunum þar sem að ekki kom fram beiðni um slíkt frá barnaverndaryfirvöldum,“ segir Leifur og bætir við: „Síðast þegar ég vissi þá var bannað að ræna börnunum og fljúga með þau á milli landa án heimildar forsjáraðila. Faðir fer einn með fulla forsjá yfir þessum drengjum og margoft búið að dæma honum í vil hvað forsjána varðar.“

Íslenskum stjórnvöldum ber að skila drengjunum

Þá gagnrýnir Leifur íslensk stjórnvöld harðlega og bendir á að það sé frumskylda íslenskra stjórnvalda, samkvæmt Haag-samningnum, að skila barni þegar í stað sem hefur verið flutt með ólögmætum hætti til Íslands eða sé haldið með ólögmætum hætti hér á landi: „Þannig að í þessu máli ber íslenskum stjórnvöldum að skila þessum drengjum þegar í stað til Noregs.“

En hvað er ólögmætt brottnám barns samkvæmt Haag-samningnum? Á vef stjórnarráðs Íslands er farið nokkuð ítarlega í umrædd brottnámslög og hann útskýrður á mannamáli. Þar kemur meðal annars fram:

Í Haagsamningnum og brottnámslögunum nr. 160/1995 er að finna nokkur skilyrði sem öll þurfa að vera fyrir hendi til þess að um ólögmætt brottnám barns sé að ræða sem falli undir samninginn og lögin:

  • Barnið hafi fyrir brottnámið verið búsett í öðru samningsríki en Íslandi
  • Það foreldri sem gerir kröfu um að barni verði skilað hafi forsjá þess samkvæmt reglum þess lands þar sem barn var búsett. Forsjáin getur verið alfarið í höndum þess foreldris eða í höndum beggja (sameiginleg forsjá).
  • Flutningur barns til Íslands sé brot á reglum um forsjá í landinu þar sem barnið var búsett áður en það var flutt til Íslands.
  • Það foreldri sem gerir kröfu um að barni verði skilað þarf að hafa notið forsjárréttar síns í raun. Það þýðir þó ekki að barnið þurfi að hafa búið hjá því foreldri sem krefst afhendingar þess.

Reglurnar um ólögmætt brottnám eiga ekki aðeins við ef barn er numið á brott með ólögmætum hætti heldur einnig í þeim tilvikum þegar barni er með ólögmætum hætti haldið í samningsríki. Það getur til dæmis átt við ef foreldrarnir voru í upphafi sammála um að barnið kæmi til Íslands, t.d. í frí eða til að njóta umgengni við foreldri en síðar neitar foreldrið að senda barnið til baka til búsetulands þess, eftir að umsömdu tímabili er lokið.

Þá segir einnig um skyldur Íslands samkvæmt Haag-samningnum:

Á ríkjum sem gerst hafa aðilar að Haagsamningnum hvílir skylda til að tilnefna móttökustjórnvald. Móttökustjórnvöld ríkjanna vinna saman að þeim málum sem heyra undir samningana. Meginhlutverk móttökustjórnvalds er að móttaka erindi, frá einstaklingum og erlendum ríkjum, og senda erindi, m.a. beiðni foreldris um afhendingu brottnuminna barna, til réttra stjórnvalda, dómstóla eða einstaklinga, veita aðstoð og miðla upplýsingum um mál er heyra undir samningana. Á Íslandi er dómsmálaráðuneytið móttökustjórnvald.

Frumskyldan samkvæmt samningnum er að skipa svo fyrir að barni, sem hefur verið flutt ólögmætum hætti til Íslands, eða sem er haldið á ólögmætan hátt hér á landi, skuli skilað þegar í stað. Ákvarðanir um afhendingu barna samkvæmt framansögðu eru teknar af héraðsdómara. Haagsamningurinn leggur einnig skyldur á stjórnvöld og þannig ber t.d. dómsmálaráðuneytinu að hafa samvinnu við yfirvöld í öðrum samningsríkjum til að tryggja að börnum verði skilað sem fyrst, að veita upplýsingar almenns eðlis um íslensk lög í tengslum við beitingu samningsins, að hefja eða greiða fyrir að hafin verði málsmeðferð fyrir dómstólum í því skyni að fá barni skilað, að veita eða greiða fyrir því að veitt sé lögfræðileg aðstoð og ráðgjöf o. fl.

Með vísan til 27. gr. Haagsamningsins er móttökustjórnvaldi óskylt að taka við beiðni þegar augljóst er að skilyrðum samningsins er ekki fullnægt eða að beiðnin á ekki að öðru leyti við rök að styðjast. Í slíkum tilvikum skal móttökustjórnvaldið skýra frá ástæðum þess.

Ráðherra ræddi málið á Alþingi

„Faðir hefur unnið afhendingarmálið (Haagmálið) á öllum dómstigum hér á landi og er með ólíkindum að stjórnvöld á Íslandi hafi enn sem komið er ekki náð að framfylgja niðurstöðum dómstóla. Dómstólar hafa gert allt rétt en hið sama verður ekki sagt um íslensk stjórnvöld,“ segir Leifur sem gagnrýnir dómsmálaráðherra og Alþingi harðlega fyrir að hafa rætt þetta mál opinberlega á alþingi Íslendinga.

„Ráðherra datt ekki í hug að spyrjast fyrir um hvers vegna drengirnir væru ekki komnir til föður síns í Noregi en það er jú frumskylda íslenskra stjórnvalda að skila þessum drengjum heim til sín til Noregs. Það eina sem að ráðherra virtist hafa áhuga á var hvers vegna lögreglumenn sem komu á staðinn (í aðfarargerðinni í lok október á heimili Eddu Bjarkar) voru í einkennisfatnaði. Það hvarflaði ekki að dómsmálaráðherra að spyrja sig að því hvers vegna það þurfti að kalla til aukalið frá lögreglu til að tryggja öryggi fólks á staðnum,“ segir Leifur og bætir við: „Þegar aðfaragerðin hófst þá var enginn einkennsiklæddur lögreglumaður né var nein merkt lögreglubifreið á staðnum.“

Framsal Eddu Bjarkar í ferli hjá dómstólum

Eins og áður segir hefur norska ríkið krafið hið íslenska um að Edda Björk sé framseld svo hægt sé að sækja hana til saka fyrir umrætt brottnám. En hvað er það sem hindrar íslensk stjórnvöld í að verða við framsalsbeiðnum norsku lögreglunnar?

„Ég efast um að það sé hægt að kalla Ísland réttarríki miðað við hvernig framkvæmdarvaldið hér á landi hefur staðið sig varðandi niðurstöðu dómstóla í tveimur löndum í þessu máli. Stór orð en sönn.“

„Eftir því sem best er vitað, þá hafnaði móðir að vera framseld til Noregs og er málið nú loks í hefðbundnu ferli hjá dómstólum. Gera verður þó þann fyrirvara við þetta svar, að Ríkissaksóknari neitar okkur um upplýsingar um stöðu málsins,“ segir Leifur og bendir á að heimilt sé að framselja íslenska ríkisborgara til meðal annars norðurlandanna á grundvelli laga nr. 51/2016.

Er þetta ekki fordæmalaus staða eða hefur, eftir því sem þú kemst næst, komið upp sambærileg mál sem þú veist um?

„Ég tel að þetta sé fordæmalaust mál. Þetta mál sýnir líka svart á hvítu að það þarf að fara yfir alla verkferla í svona mállum og það þarf að breyta lögum líka. Það þarf að taka hart á því þegar foreldrar ræna börnum sínum. Það þarf að koma í veg fyrir að foreldrar, sem eru án forræðis, geti tekið lögin í sínar hendur á þennan hátt,“ segir Leifur sem er ómyrkur í máli þegar það kemur að réttarríkinu hér á landi.

„Ég efast um að það sé hægt að kalla Ísland réttarríki miðað við hvernig framkvæmdarvaldið hér á landi hefur staðið sig varðandi niðurstöðu dómstóla í tveimur löndum í þessu máli. Stór orð en sönn.“

Nútíminn hefur óskað eftir upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu og dómsmálaráðherra og er beðið eftir svörum.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing