Nútíminn fjallaði ítarlega í síðustu viku um mál þriggja drengja sem var rænt í Noregi og þeir fluttir ólöglega til Íslands með einkaflugvél árið 2022. Það var móðir drengjanna, Edda Björk Arnardóttir, og vellauðugur kærasti hennar sem skipulögðu verknaðinn. Nútíminn ræddi við lögmann föðurs drengjanna, Leif Runólfsson, en faðirinn hefur ekki viljað koma fram opinberlega í fjölmiðlum „til að vernda börn sín.“
Það hefur Edda Björk hinsvegar verið ófeimin við en hún hefur ítrekað komið fram í fjölmiðlum undir nafni og rætt málið. Hlið föðursins hefur hinsvegar ekki litið almennilega dagsins ljós – allavega ekki fyrr en í síðustu viku þegar Nútíminn hafði samband við lögmann hans. Þess má geta að Nútíminn hefur boðið Eddu Björk að svara ummælum Leifs Runólfssonar en því boði hefur ekki verið svarað.
Harðorður í garð ráðherra
Í kjölfarið hafði Nútíminn samband við dómsmálaráðuneytið en Leifur var harðorður gagnvart bæði ráðuneytinu og ráðherra þess í viðtalinu. Sagði hann meðal annars að hann hafi óskað eftir því að hitta bæði fyrrum og núverandi dómsmálaráðherra til að ræða málið „…en það virðist enginn áhugi á því.“
„Ráðuneytið getur ekki veitt frekari upplýsingar um þetta tiltekna mál.“
Óskað var eftir viðbrögðum ráðuneytisins og þá sérstaklega viðbrögðum Guðrúnar Hafsteinsdóttur, dómsmálaráðherra, við þeim ummælum sem Leifur viðhefur við Nútímann. Rétt eftir hádegi í dag barst svo svar frá dómsmálaráðuneytinu en þar segir að núverandi ráðherra hafi í lok síðasta mánaðar borist fundarbeiðni frá lögmanninum og að það hafi ráðherra nú til skoðunar. Þá segir einnig í svari dómsmálaráðuneytisins: „Ráðuneytið á jafnframt í reglulegum samskiptum við norsk stjórnvöld vegna málsins eins og almennt á við í sambærilegum málum. Þá hefur ráðuneytið kallað eftir upplýsingum frá sýslumanni sem hefur haft aðfararbeiðni vegna málsins til meðferðar.“
Ræddi málið á Alþingi en vill ekki ræða við Nútímann
Engin viðbrögð fengust frá dómsmálaráðherra sjálfum eins og óskað var eftir af Nútímanum en í svörum ráðuneytisins kom fram að það „…getur ekki veitt frekari upplýsingar um þetta tiltekna mál.“
Guðrún Hafsteinsdóttir vildi semsagt ekkert láta hafa eftir sér um málið en ræddi það þó á Alþingi í óundirbúnum fyrirspurnartíma í lok síðasta mánaðar. Þar ræddi hún um aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík og hafði mestar áhyggjur af því að lögreglan og sýslumaður hefðu ekki farið að lögum í umræddri aðgerð. Þær áhyggjur eru þó byggðar á sandi ef marka má lögmann föðursins, Leif Runólfsson, sem sagði að allt hefði verið gert samkvæmt bókinni en faðirinn stöðvað umrædda aðför þegar hópur af fólki safnaðist saman fyrir utan heimili Eddu Bjarkar og hrópaði að bæði drengjunum þremur og föður þeirra.
Aðstæður kölluðu á einkennisklædda lögreglumenn
Þá sagði Guðrún á Alþingi að það stæði skýrt í lögunum að lögreglumenn ættu að vera óeinkennisklæddir í aðgerð sem þessari: „Eftir því sem ráðherra sá í fjölmiðlum í gær þá var það ekki raunin. Ég tek það alvarlega. Ég tek það til skoðunar að þessir verkferlar, það verði farið yfir þá og það verði farið yfir málið.“
Nútíminn hefur fengið það staðfest að það voru einungis óeinkennisklæddir lögreglumenn sem tóku þátt í umræddri aðgerð en kallað var eftir liðsauka þegar æstur múgur, meðal annars frá samtökunum Líf án ofbeldis, safnaðist saman fyrir utan heimilið.
Það má því segja að Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra sé þögul sem gröfin um mál drengjanna þriggja…nema það sé rætt á Alþingi.
Viðtal Nútímans við lögmann föðurs drengjanna má lesa hér.