Dómari í Bandaríkjunum hefur ógilt fangelsisdóminn yfir Brendan Dassey.
Dassey var ásamt Steven Avery, frænda sínum, dæmdur fyrir morðið á ljósmyndaranum Teresu Hallbach árið 2005. Málið var tekið fyrir í heimildarþáttaröðinni Making a Murderer sem sló í gegn á Netflix í desember í fyrra.
Sjá einnig: Netflix staðfestir nýja þáttaröð af Making a Murderer
Saksóknarar hafa nú 90 daga til að ákveða hvort mál Dassey fari fyrir rétt á ný. Geri þeir það ekki verður honum sleppt úr fangelsi. Hann var 16 ára þegar hann var dæmdur.
Dómarinn í málinu sagði að umdeildar yfirheyrsluaðferðir lögreglunnar, sem fjallað var rækilega um í Making a Murderer, hafi vegið þungt þegar dómurinn var ógildur. Hann sagði að játning Dassey hafi verið þvinguð fram.
Þá sagði hann vinnubrögð verjanda Dasseys hafa verið óboðleg og að Len Kachinsky, sem upphaflega var skipaður verjandi Dasseys, hafi eytt meiri tíma í að tala við fjölmiðla en að vinna í máli hans.
Netflix hefur staðfest að önnur sería af Making a Murderer sé væntanleg.