Átta ökumenn voru í gærkvöldi og í nótt stöðvaðir af lögreglu grunaðir um annað hvort akstur undir áhrifum vímuefna eða áfengis.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en 56 mál voru bókuð í LÖKE-kerfi embættisins. Þá var eitthvað um tilkynningar um fólk í annarlegu ástandi en lögreglan afgreiddi það á vettvangi. Þá bárust sömuleiðis tilkynningar um veikindi þar sem aðstoð lögreglu var óskað.
Þrír fengu að gista fangageymslur lögreglu. Einn þeirra var ógnandi og í annarlegu ástandi í hverfi 101 um klukkan 17:00 í gær en rétt eftir miðnætti voru svo tveir menn, einnig í annarlegu ástandi, til vandræða í hverfi 105: „…þar sem þeir höfðu ekki í nein hús að venda var þeim veitt gisting í fangageymslu,“ segir í dagbókinni.
Um klukkan 19:00 var tilkynnt um þjófnað á tölvubúnaði en málið er í rannsókn – ekki er vitað hver gerandi er.