Gunnar Lárus Hjálmarsson, betur þekktur sem Dr. Gunni, heiðraði pabba sinn og bróður í dag með því að fá sér tattú með vörumerki fjölskyldufyrirtækisins Tempo.
Hann fékk sér fyrsta tattúið á þessum degi fyrir ári síðan þegar hann varð fimmtugur og endurtók leikinn í tilefni fimmtíu og eins árs afmælisins. Er Gunni að hugsa um að fá sér eitt tattú á ári svo lengi sem hann lifir.
Á mynd sem Gunni birti á Facebook-síðu sinni í dag má sjá vörumerki innrömmunarfyrirtækisins Tempu á innanverðum hægri framhandlegg hans.
„Ég er að hugsa um að fá mér alltaf eitt á hverjum afmælisdegi,“ segir Gunni í samtali við Nútímann.
Síðan verður hægt að flá mig og hengja mig upp á Poppminjasafninu.
Hjálmar, pabbi Gunna, keypti Tempo árið 1978 og rak það ti ársins 2005. Bróðir Gunna keypti þá fyrirtækið sem hefur haft sama vörumerki allan tímann. „Þetta er besta innrömmun bæjarins og ódýrasta,“ segir Gunni og bætir við að hún sé til húsa í Hamraborg í Kópavogi.
Tattúið var ekki skyndiákvörðun heldur hafði Gunni velt því fyrir sér í nokkurn tíma. Hann segir að pabbi sinn sé orðinn gamall og dvelji á sjúkrahúsi um þessar mundir. Hann hafi vilja heiðra hann með þessum hætti.
Margir sem fá sér tattú láta ekki staðar numið við eitt og bæta af og til í safnið.
„Eftir fyrsta tattúið ert þú kominn yfir ákveðinn þröskuld. Þá veit maður hvernig þetta er, hvað þetta er skemmtilegt og að þetta er ekkert mál. Ég er samt ekki að fara að fá mér eitthvað tribal-tattú eða ermi,“ segir Gunni.