Auglýsing

Draugalegar ljósmyndir sýna yfirgefna ferju þar sem fjárhættuspil lifði góðu lífi – MYNDIR

Dularfullir og yfirgefnir staðir eru eitt helsta áhugamál Ben Stevens en hann er þekktur fyrir að ljósmynda slíka staði úti um allan heim. Nýjasti „staðurinn“ sem hann heimsótti var risastór ferjubátur sem liggur nú við bryggju í Flórída-fylki í Bandaríkjunum.

„Það er eins og allir hafi gengið út á sama tíma og aldrei komið tilbaka,“ sagði Ben um ferjuna.

Um er að ræða ferjubát sem var gerður út til þess að stunda fjárhættuspil en á tímabili var slíkt bannað í Flórída og því brugðu menn á það ráð að sigla út fyrir „landhelgina“ þar sem engin lög náðu yfir slíka starfsemi. Báturinn heitir Blue Horizon og sigldi út frá höfninni í Palm Beach í fyrsta sinn árið 2015 en um það bil ári síðar hafði hann hætt starfsemi.

Hér voru eitt sinn bornar veigar á borð fyrir fjárhættuspilara en nú er þar ekkert nema húsgögn og mygla.

Allt í myglu, alvöru seðlum og spilapeningum

Þegar hinn þrítugi Ben gekk um borð Blue Horizon þá var eins og ferjubáturinn hefði frosið í tíma og rúmi en um borð voru til að mynda spilakassar í fullkomnu ástandi. Eins og sést á meðfylgjandi myndum er eins og fólkið hafi lagt frá sér spilin, gengið frá borði og aldrei komið aftur.

„Það var bæði óhugnanlegt og áhugavert að sjá allt sem var skilið eftir. Allt frá alvöru seðlum og pókerpeningum yfir í heilu húsgögnin. Það var eitt herbergi þarna með öryggisskáp og þar inni voru allir þeir spilapeningar sem fólk hafði skipt út fyrir seðla á sínum tíma,“ sagði Ben í samtali við What‘s The Jam. DailyMail greinir frá.

„Ég var þarna í nokkrar klukkustundir en það var hrikalega heitt þarna um borð og lyktin af myglu var rosaleg.“

Spilapeningarnir voru skildir eftir um borð. Frekar draugalegt umhverfi.

Nýju lögin voru banabiti ferjunnar

Blue Horizon sigldi aðeins í fimm mánuði og neyddist til að leggjast að bryggju eftir að spilavítum á landi í Flórída var löglega heimilt að bjóða upp á leiki eins og rúllettu og önnur fjárhættuspil. Robert Weisberg, framkvæmdastjóri PB Gaming sem gerði út ferjuna, sagði að með tilkomu hinna nýju laga hafi skipið misst sérstöðu sína og því ekki lengur haft það aðdráttarafl sem það hafði í byrjun.

Skipstjóri ferjunnar, Mark Wilkerson, lét hafa það eftir sér að það væri erfitt að keppa við spilavíti á landi: „Þú ert fastur um borð í ferju í fjórar klukkustundir og þá er erfitt að gera nokkuð annað en að sitja um borð og bíða eftir því að komast aftur í höfn ef þú tapar öllu snemma.“

Hér sést brú ferjunnar þar sem skipstjórinn stjórnaði siglingaleiðinni sem var alltaf út fyrir landhelgi fylkisins.

En nýju lögin um fjárhættuspil í Flórída-fylki voru þó ekki einu vandræðin sem dundu yfir ferjuna og rekstraraðila hennar, PB Gaming. Fyrstu þrjá mánuðina eftir sjósetningu þurfti fyrirtækið að eyða 9 milljónum dollara, eða tæpum 1,3 milljörðum íslenskra króna, í viðgerð á vél ferjunnar. Slæm fjárfesting? Já. Eins og allt er viðkemur fjárhættuspilum.

Spilakassar í svo til fullkomnu ástandi voru um borð í ferjunni.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing