Ungir jafnaðarmenn dreifðu í gær límmiðum um höfuðborgarsvæðið. Á límmiðunum voru jákvæð skilaboð í garð flóttafólks og hælisleitenda sem vilja setjast að hér á landi. Þetta er svar gegn hatursáróðri sem hefur verið dreift á svæðinu með sömu aðferð.
„Við líðum ekki að á Íslandi séu ákveðin öfl að dreifa hatursáróðri gegn þessum viðkvæmu hópum,“ segir í tilkynningu Ungra jafnaðarmanna.
„Ungir jafnaðarmenn munu ekki sitja hjá og láta það líðast að öfgahópar gangi um götur okkar og dreifi hatursorðræðu í garð viðkvæmra hópa í samfélaginu,“ segir Nikólína Hildur Sveinsdóttir, formaður Ungra jafnaðarmanna, í fréttatilkynningu.
Ungir jafnaðarmenn telja að stefna íslenskra stjórnvalda í þessum málum sé ómannúðleg. Íslendingar eiga að axla ábyrgð og opna faðminn fyrir fólki á flótta.
„Ríkisstjórnin, með Sigríði Andersen dómsmálaráðherra í broddi fylkingar, rekur stálhnefastefnu gagnvart hælisleitendum, segir Nikólína.
„Hún lýsir sér í því að fólk í mjög viðkvæmri stöðu er miskunnarlaust sent úr landi. Gildir þá einu hvort fólk sé með börn og ljóst er að íslensk stjórnvöld hafa ítrekað orðið uppvís að því að brjóta gegn Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.“
Í dag fóru Ungir jafnaðarmenn um höfuðborgarsvæðið og dreifðu límmiðum með jákvæðum boðskap í garð flóttafólks og hælisleitenda. Við líðum ekki að á Íslandi séu ákveðin öfl að dreifa hatursáróðri gegn þessum viðkvæmu hópum.
Íslendingar eiga að opna faðminn fyrir fólki á flótta! pic.twitter.com/ByWFMFuuzC
— Ungir jafnaðarmenn (@ungjofn) November 18, 2018