Auglýsing

Drengirnir í hellinum: forseti FIFA býður tælensku drengjunum á úrslitaleik HM, Elon Musk býður fram aðstoð

Gianni Infantion forseti FIFA hefur boðið tælensku drengjunum tólf sem fastir eru í helli í Tælandi á úrslitaleik HM sem fer fram í Moskvu sunnudaginn 15. júlí næstkomandi að því er kemur fram í frétt Mbl. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands lagði til fyrr í þessari viku að strákarnir myndu leiða leikmenn inn á völlinn í úrslitaleiknum ef tækist að bjarga þeim í tæka tíð.

Drengirnir og fótboltaþjálfari þeirra lokuðust inni í helli í norður Tælandi fyrir tæpum tveimur vikum en fundust á mánudag heilir á húfi níu dögum eftir að þeir lokuðust inni í hellinum. Enn hefur ekki tekist að bjarga þeim úr hellinum en aðstæður eru erfiðar þar sem mikið hefur rignt á svæðinu síðustu vikuna og hellakerfið sem þeir sitja fastir í fullt af vatni. Í morgun bárust fréttir af því að kafari sem starfaði fyrir tælenska herinn hafi drukknað í hellinum eftir að súrefnisbyrgðir hans kláruðust þegar hann var að flytja súrefniskúta til drengjanna.

Infantino segir alla hjá FIFA hafa fylgst náið með fréttum af drengjunum. Hann sendi Tælenska knattspyrnusambandinu bréf þar sem hann vonast hann til þess að drengirnir komist aftur í hendur fjölskyldna sinna sem fyrst. Ef heilsa þeirra leyfir vilji FIFA bjóða þeim á úrslitaleik HM.

Málið hefur vakið heimsathygli og margir knattspyrnumenn hafa sent drengjunum kveðjur. John Stones landsliðsmaður Englands sagði enska liðið hugsa til þeirra og vona að þeim verði bjargað. Sænski landsliðsmaðurinn Sebastian Larsson sagði sænska landsliðið biðja fyrir drengjunum.

Japanska landsliðið sendi drengjunum kveðju á Twitter þar sem þeir sögðu drengjunum að gefast ekki upp og að fótboltafjölskyldan styðji þá.

Bloomberg greindi frá því í gær að Elon Musk forstjóri Tesla hafi boðið fram hjálp sína við björgun drengjanna en hann ætli að senda teymi verkfræðinga á björgunarstaðinn óski tælensk yfirvöld eftir því. Fyrirtæki hans búa einnig yfir öflugum búnaði til að dæla vatni sem gæti nýst vel í björgunaraðgerðunum en núna er vatni dælt af miklum krafti út úr hellinum meðan björgunarmenn reyna að finna bestu leiðina til að bjarga hópnum. Musk getur einnig boðið fram öfluga rafgeyma til að knýja búnað sem dælir vatninu úr hellinum samkvæmt talsmanni hans.

Enn hefur ekki verið staðfest hvort að tælensk yfirvöld þyggi hjálp milljarðamæringsins en hann sagðist á Twitter í gær fullviss um að yfirvöld í Tælandi hafi góða stjórn á aðstæðum en sé þess óskað muni hann glaður hjálpa.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing