Nútíminn sagði í morgun frá svari Ármanns Kr. Ólafssonar, bæjarstjóra í Kópavogi, við fyrirspurn Sigurjóns Jónssonar varabæjarfulltrúa um frímiða og annað sem tengdist tónleikum Justins Timberlake í Kórnum.
Sigurjón var í viðtali í útvarpsþættinum Harmageddon á X977 í morgun og fór yfir sína hlið málsins. Hann virtist afar ósáttur með vinnubrögð Ármanns Kr., sem vitnaði í tölvupóst hans, að honum forspurðum, í opinberu svari við fyrirspurn inni, sem hann lagði fram á bæjarráðsfundi.
Ef menn átta sig á hversu mikill drulluskapur er í þessari pólitík — að Ármann vitni beint í tölvupóst sem ég sendi honum í trúnaði, í svari við spurningu sem tengist ekkert málinu.
Frosti Logason, annar stjórnenda Harmageddon, spurði Sigurjón í kjölfarið hvort hann teldi svar Ármanns vera ófrægingarherferð (e. smear campaign):
Já. En ég er með breitt bak, ég get tekið því.
Sigurjón segir málinu ekki lokið þar sem það á t.d. eftir að koma fram hversu mikið Sena greiddi fyrir leigu á húsnæðinu undir stórtónleikana.