Fjölmiðlar greindu frá því í gær að dularfullur hakkari hefði ráðist á samfélagsmiðlateymið Áttuna og eytt út öllu efni af samfélagsmiðlum sveitarinnar. Hakkarinn kallaði Áttuna „viðbjóð“ og sagði að Áttan væri „allt það sem er að í samfélaginu í dag“.
Sjá einnig: Dularfullur hakkari útrýmir Áttunni
Hakkarinn er ekki einn um það, en viðbrögðin við árásinni hafa verið blendin. Margir taka ofan af fyrir hakkaranum dularfulla og hrósa honum fyrir vel unnin störf, enda þykir mörgum Áttu-liðar lágkúra og tónlistarflutningur þeirra eftir því. Áttan hefur þó gert margt annað en að gefa út tónlist, en Áttu-liðar halda úti vinsælum Snapchat og Instagram-reikningum, birtu vefþætti á mbl.is um skeið og halda úti útvarpsstöðinni ÁttanFM. Störf Áttunnar virðast vera vinsælli hjá yngri kynslóðinni en hún er háværust þegar kemur að því að gagnrýna störf hakkarans. Hakkarinn hefur verið uppnefndur „lítið bitch“ og „fokin nubbi“ sem áætla má að eigi að þýða „fucking noob“ eða „helvítis amatör“.
Hakkarinn dularfulli, klæddur í svarta hettupeysu með ógnvænlega grímu og dimma rödd, hefur sent frá sér nýtt myndband þar sem hann, eins og sönnum glæpamanni, krefst lausnargjalds.
Nýja myndbandið má sjá hér að neðan:
Hakkarinn dularfulli þakkar þjóðinni fyrir góð viðbrögð, en fyrra myndbandið, „Útrýming Áttunnar“ hefur fengið rúmlega 14.000 áhorf frá birtingu í gærkvöldi. Hakkarinn heldur þjóðinni og framtíð Áttunnar í heljargreipum eins og í spennandi Hollywood-trylli og segist skila efni Áttunnar ef samfélagsmiðlateymið lofi því að gefa ekki út frekari tónlist.
Sjá einnig: Nökkvi Fjalar kemur alveg ofan af fjöllum: „Algjört sjokk”
Hakkarinn vandar þó Áttunni ekki kveðjur sínar og uppnefnir sveitinna handbendla „saurugs kapítalismans“. Greinilegt er að hakkarinn er vel gefinn og vel máli farinn, sem ætti að geta þrengt leit Áttunnar að sökudólgnum töluvert.
Hakkarinn bætir því við eftir að hafa lagt fram kröfur sínar að samþykki Áttu-liðar að hætta að framleiða tónlist, muni hakkarinn gefa út nýja yfirlýsingu í hádeginu á morgun.
Spurning er hvort Áttu-liðar ættu ekki að hafa samband við lögregluna til að hafa hendur í hári þessa hryðjuverkamanns.