Dularfullt skjal sem virðist sýna upplýsingar um næstu plötu Beyoncé ferðast nú um netið. Ekkert heyrist frá fulltrúum söngkonunnar og óvíst er hvort um raunverulegar upplýsingar sé að ræða.
Skjalið má sjá hér fyrir neðan.
Beyoncé gaf óvænt út plötu í desember á síðasta ári og ef skjalið dularfulla er raunverulegt virðist sem hún ætli að endurtaka leikinn. Enginn hefur staðfest hvort skjalið innihaldi raunverulegar upplýsingar en ýmsar vísbendingar þykja benda til þess að plata sé á leiðinni frá drottningunni.
Vefsíðan WonderingSound veltir til að mynda fyrir sér hvort ástæðan fyrir því að plötu Nicki Minaj var seinkað til 15. desember sé sú að Beyoncé ætli að gefa út í nóvember.
Næsta plata Minaj átti að koma út 24. nóvember en samkvæmt skjalinu kæmi ný plata Beyoncé út á iTunes 14. nóvember og í sérstakri fjögurra diska viðhafnarútgáfu 25. nóvember. Og ekki færi Minaj að gefa út plötu í beinni samkeppni við drottninguna.
Ef upplýsingarnar í skjalinu reynast réttar er mikill gestagangur á plötunni. Á meðal þeirra sem eru talin upp sem flytjendur eru Jay-Z, Drake, Nicki Minaj, Frank Ocean, Justin Timberlake og Rihanna. Þá er Blue Ivy, dóttir Beyoncé og Jay-Z, einnig talin upp sem flytjandi.
Ljóst er að auðvelt væri að falsa svona skjal en aðdáendur söngkonunnar lifa í voninni.
Fylgdu Nútímanum á Facebook og þú missir ekki af neinu.