Dularfullur aðdáandi leikarans Jeff Goldblum snýr aftur í fasta dálknum Velvakandi í Morgunblaðinu í dag. Aðdáandinn skaut fyrst upp kollinum þegar hann sendi nafnlaust bréf í Velvakanda um ástarlíf Goldblum í júlí árið 2014. Bréfið hefur vakið talsverða athygli og ferðast reglulega um samfélagsmiðla.
Hér má sjá bréfið frá árinu 2014
Bréfið er ansi skemmtilega skrifað og endar á orðunum: „Jeff Goldblum er ekkkert uppáhaldsleikarinn minn. Bara mjög góður leikari“.
Í dag birtist svo svipað bréf í Velvakanda í Morgunblaðinu þar sem nýjustu ævintýri leikarans eru rakin. Bréfið endar alveg eins en óvíst er hvort sami aðdáandi sé hér á ferð. Ljóst er að sá eða sú sem skrifaði bréfið sem birtist í dag hefur lesið eða hreinlega skrifað bréfið sem birtist árið 2014 þar sem það endar alveg eins: „Jeff Goldblum er ekkert uppáhaldsleikarinn minn. Bara mjög góður leikari.“