Áhugi var fyrir því hjá EA Sports að hafa Ísland með í FIFA 17 en ekki náðust samningar um það á milli tölvuleikjaframleiðandans og KSÍ.
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, segir í samtali við Nútímann að EA Sports hafi boðið lága fjárhæð fyrir réttindin, lítilræði sem KSÍ sætti sig ekki við.
Ekki náðust samningar um hærri upphæð og því verður Ísland ekki með í þetta skipti. Geir segir að þetta sé í fyrsta skipti í mörg ár sem tölvuleikjaframleiðandinn sækist eftir því að hafa Ísland í leiknum.
Sjá einnig: Ísland verður ekki með í FIFA 17
mbl.is greindi frá því um helgina að íslensku karla- og kvennalandsliðin í knattspyrnu væru ekki meðal þeirra landsliða sem EA Sports ákvað að hafa í nýjustu útgáfu FIFA-tölvuleiksins.
Kvennalandsliðum var fjölgað í 14 en Íslands, sem er í 16. sæti á heimslista FIFA, er ekki á meðal þeirra. Karlalandsliðin í leiknum eru 47 talsins en þrátt fyrir að hafa komist í átta liða úrslit á EM í Frakklandi í sumar og að vera í 27. sæti heimslistans, er Ísland ekki þar á meðal.
Eins og áður hefur komið fram ákvað EA Sports aftur á móti að hafa stuðningsmannaklapp Íslendinga, víkingaklappið svokallaða, í leiknum að þessu sinni.