Tónlistarmaðurinn Ed Sheeran er á leið hingað til landsins í ágúst. Hann mun halda tvo tónleika á Laugardalsvelli, þann 10. og 11. ágúst. Ísleifur B. Þórhallsson, tónleikahaldari hjá Senu Live, ræddi við Morgunblaðið í dag. Hann segir að Ed Sheeran sé spenntastur fyrir því að koma til Íslands af öllum stöðunum sem hann heimsækir á tónleikaferðalagi sínu.
Sjá einnig: Glowie hitar upp fyrir Ed Sheeran
Hópur frá Senu Live fór til Portúgals og hitti Ed Sheeran á dögunum. Ísleifur segir frá því að hópurinn hafi farið í tvo daga og annan daginn hafi þau hitt Ed. „Hann var bara að fá sér að borða eins og hver annar starfsmaður þarna baksviðis.“
Þá segir hann frá því að Ed hafi farið að tala um íslenska landsliðið en það vakti töluverða athygli á síðasta ári þegar Ed Sheeran kom fram á tónleikum í íslensku landsliðstreyjunni.
„Hann fór einmitt að tala um landsliðið við okkur og spurði hvort það væri séns að fá treyju þegar hann kemur og bað okkur að bjóða landsliðinu á tónleikana fyrir sína hönd. Við erum búnir að koma því til skila og erum að kanna hvort við getum ekki fengið treyjuna áritaða,“ segir Ísleifur í Morgunblaðinu.