Umræðan er nýr þáttur um pólitík og hefur göngu sína á Stöð 2 í næstu viku. Heiða Kristín stýrir þættinum en sjónvarpskonan reynslumikla Edda Andrésdóttir hefur hjálpað henni að undirbúa sig.
„Það er mjög gott að fá leiðbeiningar frá Eddu. Hún er svo jákvæð og drífandi svo kemur hún með svo góða gagnrýni en er alltaf brosandi,“ segir Heiða Kristín Helgadóttir um samstarfið við Eddu Andrésar.
Heiða Kristín stýrir þættinum Umræðan sem verður á dagskrá í endurbættu Ísland í dag í vor. Fyrsti Umræðuþátturinn verður á dagskrá mánudaginn 13. apríl og Heiða segir að Edda hjálpi henni að lokka áhorfendur að skjánum.
„Enda er hún sérfræðingur í því,“ segir Heiða létt.
Blaðamennirnir Fanney Birna Jónsdóttir og Kolbeinn Óttarsson Proppé verða fastagestir í þættinum ásamt því að vera með Heiðu í ritstjórn þáttarins. Þau fjalla um pólitík í miðlum 365.
Heiða Kristín tilkynnti óvænt í desember að hún myndi hætta sem stjórnarformaður Bjartrar framtíðar og hætta afskiptum af stjórnmálum. Hún kom að stofnun Besta flokksins fyrir sveitastjórnarkosningarnar 2010 og síðar Bjartrar framtíðar.
Hún var um tíma aðstoðarmaður Jóns Gnarr borgarstjóra, framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks Besta flokksins, varaformaður Besta flokksins, stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Bjartrar framtíðar.