Eins og Nútíminn greindi frá í gær leikstýrir Silja Hauksdóttir Áramótaskaupi Sjónvarpsins í ár. Í fréttinni kom einnig fram að Skaupið í ár verði kvennaskaup, þar sem aðeins konur verði í hópnum sem skrifar handritið.
Nú er ljóst að Edda Björgvinsdóttir, María Reyndal, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Anna Svava Knútsdóttir, Lóa Hjálmtýsdóttir og Rannveig Jónsdóttir skrifa Skaupið ásamt Silju. Þetta kemur fram á vef RÚV í dag.
Silja segir í samtali við RÚV að vinna hópsins sé hafin þó efnið sem slíkt sé hernaðarleyndarmál. Hún óttast ekki dóm þjóðarinnar. „Ég kvíði þessu ekkert – þetta verður bara mjög skemmtilegt,“ segir hún.
Tökur á Skaupinu hefjast í byrjun nóvember.