Edda Björk Arnardóttir, sem var þann 11. janúar dæmd í 20 mánaða óskilorðsbundið fangelsi í Noregi, verður sleppt úr fangelsi á föstudaginn og mun hún þá snúa aftur til Íslands. Samkvæmt heimildum Nútímans vinnur norska lögreglan að því að vísa henni formlega úr landi en það þýðir að hún má ekki snúa þangað aftur nema að fengnu sérstöku leyfi.
Þetta eru ástæðurnar fyrir því að Edda Björk var svipt forsjá
Íslenskir dómstólar framseldu Eddu Björk um miðjan desember til Noregs með þeim skilyrðum að hún fengi að afplána dóm sinn hér á landi og svo virðist sem að norsk yfirvöld ætli að standa við það. Ekki er þó vitað hvort Edda Björk muni taka út dóm sinn í fangelsi hér á landi – líklegra þykir að hún fái að taka hann út með samfélagsþjónustu.
Þrír dómarar með einróma niðurstöðu
Edda Björk hefur setið í gæsluvarðhaldi í Noregi frá því hún var flutt nauðug þangað og í fylgd með norskum lögreglumönnum. Nútíminn hefur fjallað ítarlega um mál Eddu Bjarkar en hún var sakfelld fyrir alvarlega vanrækslu þriggja drengja sinna sem hún hafði ekki forsjá yfir en brottnam frá Noregi og flutti með einkaflugvél til Íslands.
Dómur þingsréttarins í Þelamörk var einróma en þrír dómarar dæmdu í máli Eddu Bjarkar og fékk hún þungan dóm miðað við þau viðurlög sem brot hennar fylgdu. Þá sáu dómararnir sérstaka ástæðu til að taka það fram að hún „hafi einnig lagt mikla vinnu í að segja sína, vísvitandi ranga, útgáfu af málinu í íslenskum fjölmiðlum, samfélagsmiðlum og öðrum rásum,“ eins og það er orðað í dómnum.
Jafna sig eftir að hafa verið aðskildir og faldir
Þá höfðu dómararnir áhyggjur af því hvað yrði um drengina ef þeir fengju að vera á Íslandi því þá væri mikil hætta á því að þeir yrðu „útsettir fyrir söðugu álagi og neikvæðum áhrifum af hálfu ákærðu. Skólinn hefur einnig upplýst að drengirnir eiga við verulega áskoranir að stríða og að ákærða fylgist ekki með þeim á fullnægjandi hátt.“
Samkvæmt heimildum Nútímans eru drengirnir enn að jafna sig á því sem gekk á hér á Íslandi þegar ættingjar og lögmaður Eddu Bjarkar földu þá á hinum ýmsu stöðum og í sitthvoru lagi. Þeir hafi verið hamingjusamir að hitta föður sinn aftur og hafa að undanförnu leikið sér við vini og skólafélaga í heimabæ þeirra í Noregi.
Drengir Eddu Bjarkar hamingjusamir í Noregi: Höfðu ekki sést í hálfan mánuð