Auglýsing

„Ég er að horfa á húsið mitt fara undir hraun“

„Ég er að horfa á húsið mitt fara undir hraun,“ segir Gerða Kristín Hammer sem býr ásamt fjölskyldu sinni í Efrahópi í Grindavík – götuna sem hraunið úr eldgosinu streymir nú yfir.

Nýja húsið þeirra er eitt af þeim sem sjást í vefmyndavélum RÚV. Það er ekki hægt að setja sig í spor þeirra hjóna, Gerðu Kristínar og Sigurðs V. Birgissonar en Gerða er fædd og uppalin í Grindavík. Áfallið er gríðarlegt.

„Ég á ekki orð yfir þetta. Ég er bara dofin,“ segir Gerða Kristín. Eiginmaður hennar segir að þetta hafi vofað yfir. Stundum hafi rofað til en að lokum hafi svartnættið tekið yfir.


„Það rofar alltaf til og svo kemur svartnættið aftur. Þetta er endalaust upp og niður. Þetta er í rauninni það sem vofði alltaf yfir. Þetta var viðbúið og maður skilur eiginlega ekki af hverju það er búið að vera að reyna lappa upp á bæinn því það hefur enginn áhuga á því að búa í bæ þar sem er kvikugangur undir,“ segir Sigurður sem er ekki fæddur í Grindavík en hefur búið þar í tuttugu og fimm ár.

Nútíminn hefur rætt við fleiri íbúa við Efrahóp og eru þau öll í áfalli. Um er að ræða fordæmalausar náttúruhamfarir á Íslandi og þær verstu frá því að það gaus í Vestmannaeyjum árið 1973.

Ekki sér fyrir endann á þeim hamförum sem hraunflæðið kann að hafa í för með sér. Það er átakanlegt að fylgjast með vefmyndavélum af svæðinu því ljóst er að hluti íbúa er í þessum skrifuðu orðum að missa heimili sín undir hraun.

Nú þurfa stjórnvöld og Íslendingar að standa saman og vera til staðar fyrir íbúa Grindavíkur. Allir sem einn.

 

 

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing