Meirihluti atvinnuveganefndar ætlar að leggja til að átta virkjanir verða færðar úr biðflokki í nýtingaflokk rammaáætlunar. Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, segir á Facebook-síðu sinni að honum hafi aldrei verið jafn misboðið í stjórnmálum:
Ótrúlegir hlutir að gerast hér í þinginu. Grafalvarlegir. Atvinnuveganefnd, með stuðningi ríkisstjórnar, ætlar að gera breytingatillögu við tillögu umhverfisráðherrra um að setja Hvammsvirkjun í nýtingaflokk rammaáætlunnar. Hún felur í sér að átta virkjunarkostir eru settir í nýtingaflokk án þess að það hafi farið í gegnum lögformlegt ferli rammaáætlunnar og án faglegs mats verkefnastjórnar.
Róbert kallar þetta stríðsyfirlýsingu og aðför að náttúruvernd í landinu.
„Hvet alla til þess að láta í sér heyra vegna þessa máls; það varðar svo ótrúlega stóra hagsmuni og felur í sér svo mikinn yfirgang að mann setur hljóðann,“ segir hann.
„Ég man ekki eftir að hafa verið jafn misboðið í stjórnmálum. Hér eru stór ósnert svæði við Hagavatn og austan við Mýrdalsjökul sett í nýtingu og reynt að smygla þeim bakdyramegin í gegnum þingið, án rannsókna og faglegra vinnubragða.“
Meira: Um rammaáætlun.
Kjarninn segir frá því að Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra, hafi sagt á Haustfundi Landsvirkjunnar á þriðjudag að það væri full þörf á því að endurskoða rammaáætlun og færa fleiri kosti úr biðflokki í nýtingarflokk:
„Ég segi það hreint út. Ég tel vera fulla þörf á því að við förum út í nýja orkuvinnslukosti, til viðbótar við núverandi raforkuframleiðslu, hvot sem er í vatnsafli, jarðvarma og vindi. Ég tel að röksemdir séu til staðar til að færa fleiri virkjunarkosti úr biðflokki í orkunýtingarflokk, á grundvelli þeirra gagna sem liggja fyrir úr fyrsta, öðrum og þriðja áfanga Rammaáætlunar. Og ég tel í þriðja lagi brýnt að hafist verði handa við undirbúning þeirra virkjunarkosta sem eru í orkunýtingarflokki, í samræmi við lög reglur“.