Fanney Björk Ásbjörnsdóttir, sem býr í Vestmannaeyjum, smitaðist af lifrarbólgu C við blóðgjöf á sjúkrahúsinu þar eftir barnsburð árið 1983. Fjallað var um mál hennar í fréttum Sjónvarpsins í gær.
Sjúkdómurinn var ekki greindur fyrr en hátt í 30 árum eftir blóðgjöfina. Hún stendur nú í málaferlum við ríkið, því hún fær ekki nýtilkomin lyf sem rannsóknir benda til að geti læknað langt yfir 90% sjúklinga á tólf vikum.
Meðferðin kostar hátt í tíu milljónir króna.
Egill Einarsson, frændi hennar, gagnrýnir ríkið á Facebook-síðu sinni.
„Það eru til lyf sem geta græjað þetta í 12 vikna meðferð. Lyf sem kosta 7-10 milljónir. En íslenska ríkið segir að það sé ekki til peningur. […] Mig langar að hafa frænku mína hjá mér lengur! Girða sig!“ segir hann.
Þetta er ekki flókið. Þið drulluðuð á ykkur — græið þetta! Meðferðin kostar ekki milljarð, þetta er 7-10 milljónir. Maður hefði haldið að þeir hefðu komið hlaupandi með þessu nýju lyf eftir að hafa gert þessi mistök, en neinei, halda áfram að vera með allt niðrum sig.