Fyrirtækið sem heldur utan um rekstur bláa lónsins hefur ákveðið að loka starfstöðvum sínum í Svartsengi í eina viku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bláa lóninu hf. sem barst fjölmiðlum nú í morgun.
Þá segir ennfremur að truflun á upplifun gesta í nótt „og langvarandi aukið álag á starfsmenn eru meginástæður lokunarinnar.“
Starfsmenn fyrirtæksins munu fá greidd laun og þeir gestir sem lokunin hefur áhrif á munu fá fulla endurgreiðslu. Nútíminn hefur að undanförnu bæði fjallað um hvað gæti gerst á svæði náttúrulindarinnar ef kvika kemst upp á yfirborðið í nágrenni þess. Viðbúnaðarstig almannavarna hefur ekki verið aukið sem þýðir að það er á svokölluðu „óvissustigi“ en þá eru lokanir svæðisins sem og ábyrgð á gestum náttúrulindarinnar alfarið á höndum fyrirtækisins sem rekur baðstaðinn.
Tilkynning bláa lónsins hf. í heild sinni
Bláa lónið hf. hefur ákveðið að loka starfstöðvum sínum í Svartsengi í eina viku, þrátt fyrir að viðbúnaðarstig almannavarna hafi ekki verið aukið – staðan verður metin í framhaldinu. Lokunin mun taka gildi 9. nóvember og standa til kl. 07:00, 16. nóvember.
Truflun á upplifun gesta í nótt og langvarandi aukið álag á starfsmenn eru meginástæður lokunarinnar.
Bláa lónið hf. mun fylgjast með framgangi hræringanna næstu sólarhringa og meta stöðuna. Okkar frábæru og tryggu starfsmenn fá greidd full laun meðan á lokun stendur og gestir fulla endurgreiðslu.