Eigendur barsins fræga Dead Rabbit í New York reyna nú að kæra eigendur bars með sama nafni sem opnar í Reykjavík í febrúar. Þetta kemur fram á vef New York Daily News.
Dead Rabbit opnar í Austurstræti 3 þar sem Brooklyn Bar var áður til húsa. Þar áður var Subway í húsnæðinu. Dead Rabbit í New York er margverðlaunaður og þekktur fyrir kokteilana sína.
Í frétt New York Daily News kemur fram að eigendur Dead Rabbit eigi vörumerkið í Bandaríkjunum en að erfiðlega gangi að leggja fram kæru vegna þess að barinn á Íslandi sé ekki innan lögsögu Evrópusambandsins.
Sean Muldoon, annar eigandi barsins í New York, segir að fyrrverandi starfsmaður Íslendinganna hafi haft samband og sagt frá áformum þeirra. Hann segir að eigendurnir á Íslandi hafi keypt kokteillista barsins í New York og hafi í hyggju að endurgera þá á Íslandi.
Hann óttast að fólk haldi að þeir félagar séu einnig að reka staðinn á Íslandi.
Við höfum lagt blóð, svita og tár í þennan stað og við höfum áhyggjur af þeir leggi ekki sama metnað í staðinn og við. Ef einhver ætlar að opna nýjan Dead Rabbit þá ættu við að gera það.
Andrés Björnsson, annar eigandi Dead Rabbit í Austurstræti, sagði í samtali við mbl.is á dögunum að eigendur Dead Rabbit í New York hafi ekki sett sig í samband við sig og eigi ekki einkarétt á nafninu.
Hann bendir á að nafnið eigi rætur að rekja til írsks gengis í New York á nítjándu öld sem öðlaðist frægð að nýju í kvikmyndinni Gangs of New York eftir Martin Scorsese og hafi því augljósa tengingu fyrir írskan bar.
Andrés segir á mbl.is að hann hafi vitað af staðnum í New York og að þeir séu ekki að herma eftir honum — hugmyndafræðin á bak við Dead Rabbit í Austurstræti sé önnur og útlitið ólíkt.