Einar Bárðarson hefur skorað á Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, að veita Þorvaldi Daníelssyni, framkvæmdastjóri Hjólakrafts, fálkaorðuna. Hann deildi mynd af Þorvaldi á Facebook og hvatti hann til að skoða þetta ef tvö þúsund manns lækuðu myndina. Þegar þetta er skrifað hafa fleiri en 4.600 manns lækað myndina.
„Herra forseti. Ég veit þú þekkir þennan mann og ég veit þú þekkir hvað hann gerir fyrir ungt fólk um allt land sem ekki hefur fundið taktinn í hefðbundnum íþróttum eða menningarstarfi. Hann er búinn að koma þeim af stað og nú hjóla mörg þeirra um allt land og jafnvel í kringum það er sá gállinn er á þeim. Ef ég næ 2000 like á þetta innslag viltu þá skoða það að hengja á hann eina fálkorðu fyrir okkur 🙂 kveðja, vinur Valda 🙂 ps. facebook vinir – deilið og like-ið eins og engin sé morgundagurinn,“ skrifar Einar.
Hjólakraftur er félag sem heldur námskeið fyrir ungt fólk á öllum aldri. Fyrstu námskeiðin voru haldin árið 2012 en hugmyndin var að hitta fólk sem var að tapa í baráttunni fyrir hinum ýmsu lífsstílssjúkdómum og höfðu ekki fundið sig í hópíþróttum. Hjólakraftur tók í fyrsta skipti þátt í WOW Cyclothon árið 2014 og hefur tekið þátt á hverju ári eftir það.