Auglýsing

Einar Mikael fékk styrk frá Nýsköpunarmiðstöð, myndi aldrei sækja um listamannalaun

Töframaðurinn Einar Mikael fékk styrk frá Nýsköpunarmiðstöð í fyrra upp á 550 þúsund krónur í fyrra. Styrkinn fékk hann til að kanna möguleika á útrás Töfrahetjanna í Bretlandi.

Einar hefur farið mikinn í umræðunni um listamannalaun og opinbera styrki undanfarið. Í pistli sem hann birti á Facebook sagðist hann aldrei hafa þegið listamannalaun. „Og myndi ekki sækja um styrki á borð við þau,“ sagði hann.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og starfar eftir lögum um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

Í viðtali í Bítinu á Bylgjunni sagði Einar að árið 2013 hefði hann án nokkurs stuðnings frá ríkinu haldið 410 sýningar og sett heimsmet.

Ég gaf út DVD disk. Framleiddi og leikstýrði sjónvarpsseríu og seldi Stöð 2 sýningarrétt að tveimur sjónvarpsseríum. Svo gaf ég út mína fyrstu bók þetta sama ár.

Í sama viðtali sagðist Einar ekki vera á móti listamannalaunum en hann telur eðlilegt að styðja við ungt fólk sem sé að hefja feril sinn.

Á vef Nýsköpunarmiðstöðvar kemur fram að fyrirtæki Einars Mikaels hafi verið rekið frá 2011. „Eftir arðbær ár á Íslandi eru töfrahetjurnar að kanna möguleika sína erlendis og ætla að hefja markaðsrannsóknir í Bretlandi.“

Loks sagði Einar í viðtalinu á Bylgjunni að milljónirnar sem færu í listamenn væri hægt að nýta til að bjarga mannslífum sem og í íslenska spítala. „Draumar og framtíð íslenskra barna eru mér hjartnæm og hjarta mitt slær með íslenskum börnum og íslensku þjóðinni,“ sagði hann.

Ekki náðist í Einar Mikael við vinnslu fréttarinnar.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing