Viðar Hákon Gíslason, hljóðmaður hjá norska ríkisútvarpinu, hefur starfað við tökur á þáttunum SKAM sem hafa slegið í gegn á Íslandi og víðar. Hann segir að Noregur finni vel fyrir vinsældum þáttanna á Íslandi sem og víðar en til stendur að endurgera þættina í Bandaríkjunum.
Sjá einnig: NRK lokar á SKAM fyrir aðdáendur utan Noregs, vinsældir þáttanna reyndust of miklar
Í samtali við Nútímann segir Viðar að Norðmenn finni mikið fyrir vinsældum þáttanna. „SKAM hafa vakið mikla athygli á Norðurlöndunum og England og Þýskaland eru einnig byrjuð að sýna þáttunum mikinn áhuga,“ segir hann.
Rétturinn af SKAM hefur líka verið seldur til Bandaríkjanna og þeir ætla að fara í það að gera bandaríska útgáfu af þáttunum. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þeir vinna þættina.
Viðar segir að vinsældir þáttanna séu ekki tilviljun. „NRK lögðu mikinn undirbúning í þættina og fóru í mikla rannsóknarvinnu þar sem heimur þessa aldurshóps var skoðaður. Þau vildu reyna enduspegla þennan veruleika sem best,“ segir hann.
Myndband: Menntaskólanemar um SKAM
Viðar segir að líklegasta ástæðan fyrir vinsældum þáttanna hér á landi sé hversu raunverulegir þeir eru. „Fólk sér sjálft sig í mörgum af persónum þáttanna og í þeim er verið að takast á við hluti og vandamál sem margir þekkja,“ segir hann.
„Þættirnir eiga að uppræta fordóma í samfélaginu og fjalla um þá skömm, líkt og þættirnir heita, sem er þar til staðar. Í annarri seríu voru krakkarnir sem leika í SKAM meira að segja farnir að efast um hvort þeir vildu framleiða aðra seríu þar sem heimur þeirra var orðinn svo opinn fyrir foreldrum þeirra.“