Einlægur aðdáandi Útvarps Sögu hefur stefnt Arnþrúði Karlsdóttur, útvarpsstjóra stöðvarinnar, um greiðslu á 3,6 milljónum króna. Aðdáandinn telur að um lán hafi verið að ræða á meðan Arnþrúður segir að peningarnir hafi verið styrkur. Þetta kemur fram á Vísi.
Í umfjöllun Vísis kemur fram að peningarnir hafi endað á bankareikningi Arnþrúðar. Thelma Christel Kristjánsdóttir, tengdadóttir aðdáandans, segir í samtali við Vísi að tengdamóðir sín hafi verið einlægur aðdáandi Útvarps Sögu. Hún segir einnig að tengdamóðir sín sé andlega veik og að hún hafi legið lengri tíma inni á geðdeild.
„Tengdamóðir mín heldur því fram að þetta hafi verið lán því Arnþrúður hafi sagt að hún þyrfti fjármagn til að halda stöðinni gangandi. Þetta var móðurarfur hennar, hún er öryrki,“ segir Thelma á Vísi.
Vísi hefur einnig eftir Thelmu að Arnþrúður hafi sagt gjaldkera í Arion banka hafa gert mistök og að þess vegna hafi peningarnir endað á reikningnum hennar en ekki á styrktarreikningi Útvarps Sögu. Thelma sakar Arnþrúði um að vera tvísaga í málinu og segi nú að upphæðin hafi nær samstundis verið lögð inn á styrktarreikning Útvarps Sögu.
Pétur Gunnlaugsson, útvarpsmaður á Útvarpi Sögu og lögmaður Arnþrúðar, segir hinsvegar í greinargerð stefnunnar að konan hafi viljað styrkja Útvarp Sögu og að hún hafi ekki viljað að nafn hennar yrði opinbert. Þess vegna hafi hún lagt peningana inn á reikning Arnþrúðar.