Aðeins einn ökumaður var sektaður vegna stöðubrots í Laugardalnum í gær. Þar fór fram leikur Íslands og Hollands, sem Íslendingar unnu 2-0.
Lögreglan þakkar fyrir sig á Facebook í dag:
Íslenska landsliðið stóð sig með stakri prýði í Laugardalnum í gær en það gerðu gestirnir einnig. Aðeins ein sekt var skrifuð vegna stöðubrota sem er algerlega frábær árangur. Við hjá lögreglunni erum gríðarlega ánægð með þetta og sýnir að hægt er að halda mannfagnaði án þess að lagt sé ólöglega.
Þó bílastæðavandi sé ekki til staðar í Laugardalnum er hann víða annars staðar í Reykjavík að mati Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
„Ákveðnir íþróttaleikir eru hverfishátíðir og aðsóknin eftir því. Í stað þess að sekta áhorfendur í stórum stíl og hækka sektina um 100% eins og nú er verið að gera, eiga borgaryfirvöld að freista þess að bæta úr bílastæðavandanum með friðsamlegri hætti eins og hér er lagt til,“ segir hann í hópnum Íbúasamtök Vesturbæjar á Facebook og bendir tillögu sem Sjálfstæðismenn fluttu á síðasta fundi íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur fyrir tveimur vikum:
„Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að efna til viðræðna milli borgaryfirvalda, Íþróttabandalags Reykjavíkur og lögreglunnar vegna bílastæðavanda við keppnisleikvanga og íþróttahús íþróttafélaganna í borginni. Framkvæmdastjóra ÍTR er falið að setja starfshóp á laggirnar með fulltrúum frá þessum aðilum, sem kortleggi vandamálið og komi með tillögur til úrbóta.
Skoðað verði sérstaklega að heimila lagningu bifreiða á ákveðnum svæðum nálægt íþróttaleikvöngum við sérstakar aðstæður, þ.e. meðan á fjölsóttum íþróttaleikjum stendur. Í starfi hópsins verði rík áhersla lögð á samráð og samvinnu við öll hverfisíþróttafélög borgarinnar. Stefnt skal að því að hópurinn skili áliti ásamt tillögum til úrbóta fyrir 1. apríl 2015.“