Eiríkur Jónsson ehf. sem rekur fjölmiðilinn eirikurjonsson hefur höfðað skaðabótamál gegn vefhýsingarfyrirtækinu 1984. Þetta kemur fram á eirikurjonsson.is en blaðamaðurinn Eiríkur Jónsson ritstýrir vefnum og er einnig hluthafi í Eiríkur Jónsson ehf.
Þúsundir vefja hrundu í nóvember vegna bilunar í vélbúnaði 1984. Samkvæmt síðustu fréttum Vísis um málið voru 97 prósent vefsíðna sem fyrirtækið hýsir komnir upp aftur.
Í umfjöllun á eirikurjonsson.is um málið kemur fram að Sveinn Andri Sveinsson lögmaður hafi tekið að sér að sækja skaðabætur til 1984 fyrir vefinn. „Vefurinn hvarf í kerfishruni hýsingarfyrirtækisins um miðjan síðasta mánuð og neyddist eigandinn til að láta smíða annan nýjan,“ segir þar.
Upphæð skaðabótakröfunnar hleypur á hundruðum þúsunda króna. Í fréttinni kemur einnig fram að eirikurjonsson.is þurfi ekki að greiða fyrir þjónustu Sveins Andra þar sem Eiríkur Jónsson ehf. sé fimm þúsundasti viðskiptavinur lögmannsstofu hans.