Að minnsta kosti eitt trampólín hefur fokið á Höfn í Hornafirði fyrir hádegi í dag. Lögreglan á Suðurhvetur þau sem eru með lausa muni í görðum sínum að tryggja þá og festa niður trampólín.
Veðurstofan hefur varið við stormi (meira en 20 m/sek) norðvestantil á landinu fram eftir degi en við suðurströndina í dag og á morgun. Einnig er búist við snjókomu á fjallvegum norðan- og austantil í dag.
Suðurlandsvegi um Skeiðarársand og í Öræfi verður lokað kl. 11 í dag. Lögreglan á Suðurlandi hvetur þau sem ferðast um austurhluta umdæmisins, frá Eyjafjöllum og að Höfn, að fylgjast vel með veðurfréttum og lokunum.
Versta hríðarveðrið verður á Vestfjörðum og mjög blint í 20-25 m/s, einkum á Gemlufallsheiði, Steingrímsfjarðarheiði, á Klettshálsi og Þröskuldum. Dregur úr ofankomu seinnipartinn en lægir ekki að ráði fyrr en í nótt. Dálítið snjófjúk verður á öðrum fjallvegum og NA 13-18 m/s.
Í Öræfum hvessir með morgninum, þar verða vindhviður allt að 45 m/s frá hádegi og litla breytingu er að sjá þar allt til morguns. Eins er hætt við sandfoki á Skeiðárársandi. Undir Eyjafjöllum verður líka hvasst í dag og hætt við hviðum 35-40 m/s, einkum frá því um miðjan dag.