Auglýsing

Ekkert óeðlilegt kom upp í símakosningunni í Söngvakeppninni: Ari óumdeildur sigurvegari

Ekkert óeðlilegt kom upp í símakosningunni í Söngvakeppni Sjónvarpsins um helgina og útilokað er að kosningakerfið hafi getað hagað sér ólíkt milli símanúmera í kosningunni. Sigur Ara Ólafssonar er því óumdeildur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá RÚV.

Nútíminn greindi frá því í gær að Ríkisútvarpið væri að skoða hvort öll atkvæði sem ætluð voru Degi Sigurðssyni í Söngvakeppninni hafi komist til skila. Ábendingar um möguleg vandamál í atkvæðagreiðslunni bárust í kjölfar keppninnar.

Í yfirlýsingu frá Vodafone kemur fram að tæknimenn séu búnir að skoða alla helstu þætti varðandi símakosninguna. „Sú skoðun benti ekki til neinna sjáanlegra vandamála með kosningakerfið sem notað var í símakosningunni,“ segir þar.

Bæði SMS leiðin og innhringileiðin virkuðu án truflana. Símstöðin sem notuð var í kosninguna, er sérstaklega hönnuð með símakosningar í huga, og hefur verið notuð í sama tilgangi um árabil og án hnökra.

Í yfirlýsingunni kemur fram að hafa beri í huga að margir þættir geta hafa áhrif á hvort fólk getur kosið. „Til dæmis þeir sem nota farsíma og þá sérstaklega þar sem margir eru saman komnir, þurfa að reiða sig á radiókerfi síns fjarskiptafélags. Það hefur verið þekkt vandamál að í sal í keppni sem þessari þá eru radiokerfi fljót að fyllast þegar þúsundir manna taka upp símann sinn. Eins geta álagsvandamál verið milli fjarskiptafyrirtækja eða jafnvel milli símstöðva innan hvers fjarskiptafyrirtækis.“

Our Choice fékk 44.919 atkvæði en Í stormi 39.474 í einvígi laganna á laugardagskvöld. Our Choice verður þar með framlag RÚV í Eurovision-keppninni í ár sem fram fer í Lissabon í maí.

Ari stígur á svið og flytur lagið í fyrri undankeppninni þriðjudaginn 8. maí. Seinni undankeppnin verður fimmtudaginn 10. maí en úrslitin fara fram laugardaginn 12. maí.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing