Eldgosið hefur verið nokkuð stöðugt síðustu daga og áfram gýs úr einum gíg. Frá honum flæðir hraun mestmegnis til norðurs en einnig safnast hluti hraunsins upp sunnan megin við gíginn. Hraunið sem fer til norðurs fer í hrauntjörnina við Sýlingarfell og þaðan áfram norður fyrir það þar sem hraunið þykknar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands sem var birt í dag. Þar kemur einnig fram að um hádegisbilið í gær hafi lítið gat komið í gíginn vestanverðan og þaðan flæddi hrauntaumur stutta leið í vestur í átt að Sundhnúk en sá taumur hefur ekki verið virkur frá því í gær en lítil sem engin skjálftavirkni er sögð á gosstöðvunum.
Flæðið nokkuð stöðugt
Gasmengun mun færast í átt að höfuðborginni
Samkvæmt veðurspá er suðaustanátt í dag, en suðlægari í kvöld. Gasmengunin fer til norðvesturs og síðar norðurs og má gera ráð fyrir að mengun mælist á norðanverðu Reykjanesi. Á morgun er hæg breytileg og síðar vestlæg átt. Gasmengunin mun þá færast í átt að höfuðborgarsvæðinu. Hægt er að fylgjast með rauntímamælingum ýmissa gastegunda á vefnum loftgaedi.is og gasdreifingarspá hér .