Auglýsing

Eldstöðvarkerfi um allt land að vakna: Veðurstofan eykur vöktun við Grjótárvatn

Jarðskjálfti af stærð M3,2 mældist nærri Grjótárvatni að kvöldi 18. desember. Veðurstofunni bárust tilkynningar um að skjálftinn hefði fundist m.a. í uppsveitum Borgarfjarðar og á Akranesi. Jarðskjálftavirkni hefur reglulega mælst þarna síðan vorið 2021 en undanfarna mánuði hefur virknin farið vaxandi eins og meðfylgjandi gögn frá Veðurstofu Íslands sýna.

Frá því að virknin hófst þarna vorið 2021 er jarðskjálftinn sem mældist í fyrrakvöld sá stærsti, en haustið 2021 mældust tveir skjálftar um M3 að stærð. Fyrir 2021 mældist síðast markverð skjálftavirkni þarna árið 1992 en þá mældust tveir skjálftar um M3 að stærð, sá stærri M3,2, og nokkrir aðrir yfir M2,0. Það jarðskjálftayfirlit sem miðað er við nær aftur til ársins 1991 (SIL-kerfið).

Skjáskot úr Skjálfta-Lísu sem sýnir þróun jarðskjálftavirkni við Grjótárvatn síðan í upphafi árs 2021. // Veðurstofa Íslands

Veðurstofan hefur aukið vöktun á svæðinu en í lok september var settur upp jarðskjálftamælir í Hítardal og í byrjun nóvember var bætt við GPS-stöð á sama stað. Nýi jarðskjálftamælirinn jók getu vöktunarkerfisins til þess að nema smáskjálfta. Áður en hann var settur upp mældust fáir skjálftar undir M1.0 að stærð vegna þess að nálægasta jarðskjálftastöðin var í um 30 km fjarlægð frá upptökum skjálftanna. Sé eingöngu horft til jarðskjálfta yfir 1,0 að stærð, til þess að útiloka áhrif af fjölgun mæla, er samt sem áður ljóst að jarðskjálftavirkni á svæðinu hefur farið vaxandi síðan í ágúst 2024.

Eftir að jarðskjálftamælir var settur upp nær upptökum jarðskjálftanna fæst betra mat á dýpi þeirra. Flestir jarðskjálftar á svæðinu verða í kringum 15 –20 km dýpi. Frá því að GPS-stöðin var sett upp í Hítardal hefur ekki mælst aflögun á yfirborði þar. Greiningar á gervitunglagögnum frá tímabilinu 2019 til sumarsins 2024 sýna heldur ekki mælanlega aflögun á yfirborði.

Í gærmorgun var reglulegur stöðufundur jarðvísindafólks vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga. Sérfræðingar Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnunar HÍ nýttu tækifærið og fóru einnig yfir nýjustu gögn og virkni við Grjótárvatn.

Það er ekki enn hægt að staðfesta hvað veldur jarðskjálftavirkninni en helst kemur tvennt til greina: innflekavirkni eða kvikusöfnun á miklu dýpi. Sumt gæti þó bent til að um kvikuinnskot á miklu dýpi sé að ræða, eins og stuttar jarðskjálftahviður sem hafa mælst undanfarið og dýpi virkninnar. Þörf er á frekari greiningu til að meta með vissu hvaða ferli er í gangi við Grjótarvatn og frekari rannsóknir verða gerðar. Núverandi vöktunargögn sýna þó engar vísbendingar um að kvika sé á ferðinni grunnt í jarðskorpunni. Veðurstofa Íslands mun skipuleggja aukna vöktun á svæðinu með jarðskjálfta- og GPS-stöðvum til að skilja og vakta betur þróun virkni á svæðinu.

Ef til þess kæmi að kvika myndi færast nær yfirborði er líklegast að auknir fyrirboðar myndu mælast eins og hröð aukning í jarðskjálftavirkni sem myndi færast grynnra og/eða aflögun á yfirborði.

Eldgosasaga

Grjótárvatn er innan eldstöðvarkerfis Ljósufjalla á Snæfellsnesi. Síðasta eldgosið í Ljósufjöllum var lítið gos sem átti sér stað á 10. öld og myndaði Rauðhálsahraun sem er um 13 km2 að flatarmáli. Rauðhálsahraun (um 15 km norðvestur frá Grjótarvatni). Að meðaltali hefur eldstöðvakerfið gosið á 400 ára fresti frá síðustu 10.000 árum. Líklegasta sviðsmyndin, ef kerfið vaknar aftur, er lítið gos (< 0,1 km3), eða lítið sprengigos, með hraunupphleðslu og hraunrennsli. Ef til goss kæmi má búast við að lítið svæði yrði fyrir áhrifum af helstu hættum sem tengjast eldvirkni, en þær eru: hraunrennsli, gasmengun og mjög staðbundið gjóskufall. Nánari upplýsingar um Ljósufjallakerfið má finna í Íslensku eldfjallavefsjánni.

Eldstöðvakerfi Ljósufjalla, hraun frá nútíma og gjallmyndanir. // Veðurstofa Íslands

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing