Auglýsing

Elísabet Rolandsdóttir skilar fálkaorðunni sinni: „Ég get ekki verið í riddaraklúbbi með kynþáttahatara“

Elísabet Rolandsdóttir kvikmyndaklippari ætlar að skila fálkaorðu sinni sem hún hlaut fyrir störf í íslenskri og alþjóðlegri kvikmyndagerð árið 2016 vegna Piu Kjærsgaard sem hlaut stórriddarakross hinnar íslensku fálkaorðu í byrjun síðasta árs. Elísabet greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi.

Elísabet hefur getið sér gott orð í kvikmyndaheiminum seinustu ár sem klippari en hún hefur unnið við margar af stærstum myndum Hollywood síðustu ár, meðal annars Deadpool 2, John Wick og Atomic Blonde.

Hún hefur einnig unnið náið með Baltasar Kormáki og klippti meðal annars myndirnar Vargur, Djúpið, Contraband, Mýrin, Reykjavík-Rotterdam og Brúðguminn ásamt sjónvarpsþáttaröðinni Ófærð.

Sjá einnig: Guðni forseti veitti Piu Kjærsgaard stórriddarakross hinnar íslensku fálkaorðu

Pia Kjærsgaard er fyrrverandi formaður og stofnandi danska þjóðarflokksins og er þekkt fyrir baráttu gegn fjölmenningu og innflytjendum. Hún var gestur á hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum í vikunni og flutti ávarp en vera hennar á fundinum var umdeild. Píratar sniðgengu fundinn og aðrir þingmenn mótmæltu viðveru hennar.

Eftir hátíðarfundinn á Alþingi kom síðan í ljós að Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands hafði veitt Piu stórriddarakross hinnar íslensku fálkaorðu í opinberri heimsókn hans til Danmerkur í janúar á síðasta ári.

Elísabet birtir mynd af bréfi sem hún sendir orðunefnd forsetans á Facebook þar sem hún sagðist ekki geta verið í riddaraklúbbi með kynþáttahatara og vísar þar til Piu.

„Það hefur alltaf verið þörf en nú er nauðsyn að taka skýra afstöðu gegn kynþáttahatri og fasisma sem fer sem eldur í sinu um bæði Evrópu og Norður Ameríku og því hef ég ákveðið að senda ykkur til baka mína fálkaorðu.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing