Auglýsing

Elon Musk fer í taugarnar á æðstu valdhöfum Bretlands í kjölfar óeirða

Einn ríkasti maður í heimi og eigandi samfélagsmiðilsins X heldur áfram að fara í taugarnar á æðstu valdhöfum hinna ýmsu landa en undanfarna daga hefur hann verið að pirra bresku ríkisstjórnina. Af hverju? Jú því undanfarna daga hafa gríðarlegar óeirðir átt sér stað í Bretlandi þar sem fjölmargir mótmælendur vilja meina að lögreglan þar í landi sé hlutdræg.

Milljarðamæringurinn segir að aðgerðir lögreglunnar, í kjölfar óeirðanna, „virðast vera einhliða.“

Það er að minnsta kosti það sem Elon Musk segir í færslum sínum á X en þar hefur hann sagt, líkt og þúsundir annarra mótmælenda, að lögreglan í Bretlandi sé með mismunandi „staðla“ þegar það kemur að því að fylgja eftir lögum og reglum.

Þetta er kallað „two-tier policing“ – á mannamáli þýðir það að löggæslustofnanir beiti mismunandi aðferðum við löggæslu á mismunandi hópa fólks. Oft eru þær aðferðir bundnar við til dæmis ákveðinn kynþátt, þjóðerni eða jafnvel félagslega stöðu. Með hugtakinu er gefið í skyn að sumir hópar fái betri meðferð frá lögreglunni en aðrir.

Fyrst kvörtuðu hælisleitendur en nú eru það innfæddir

Lengi vel voru það hælisleitendur og flóttamenn sem kvörtuðu undan „two-tier policing“ en í Bretlandi hefur þetta snúist algjörlega við – nú eru það hópar sem eru hægra megin í stjórnmálarófinu sem vilja meina að lögreglan sýni þessum minnihlutahópum linkind á meðan þeir sem fæddir eru og uppaldir á Bretlandi fái miklu verri meðferð.

En það eru ekki bara „hægri-menn“ á Bretlandi sem halda þessu fram – eða jafnvel hægri-öfgamenn ef út í það er farið. Elon Musk hefur nú sýnt þessum hópi ákveðna samstöðu með því að svara tístum frá ráðherrum í ríkisstjórn Bretlands – meira að segja forsætisráðherranum sjálfum en milljarðamæringurinn segir að aðgerðir lögreglunnar, í kjölfar óeirðanna, „virðast vera einhliða.“ Og þegar Elon Musk tístar að þá hlusta stjórnmálamenn – hvort sem þeir eru sammála því sem Musk tístar eður ei.

Þannig gagnrýndi bæði forsætisráðherra Bretlands, Sir Keir Starmer, og Downing-stræti eins og það lagði sig, þessa orðahríð Musk sem vildi meina að borgarastyrjöld „væri óumflýjanleg“ í kjölfar óeirðanna sem byrjuðu í Southport en hafa dreift sér eins og sinueldur um allt Bretland.

Ástæða óeirðanna er hnífaárás á barnaskemmtun í Southport þar sem þrjú stúlkubörn voru stungin til bana af Alex Rudakubana. Stúlkurnar voru níu, sjö og sex ára en þær létust í árásinni á mánudaginn fyrir rúmri viku.

Sagður múslimi og ólöglegur innflytjandi

Stuttu eftir að nafn hans var gert opinbert í breskum fjölmiðlum fóru af stað sögur um að árásarmaðurinn væri innflytjandi sem hefði fengið hæli í Bretlandi í kjölfar þess að hafa komið þangað á báti. Væri í raun ólöglegur innflytjandi. Staðreyndin er sú að Alex þessi fæddist í Cardiff, er nýorðinn 18 ára gamall en foreldrar hans eru frá Rúanda. Sögurnar sem fóru af stað á samfélagsmiðlum voru hinsvegar á þann veg að Alex væri múslimi og ólöglegur innflytjandi sem hefði komið til Bretlands á síðasta ári.

Musk vel til hægri

Af litlum neista verður oft mikið bál og óeirðirnar sem hófust í Southport hafa nú dreift sér um allar Bretlandseyjar með þeim afleiðingum að breska ríkisstjórnin hélt neyðarfund í gær vegna málsins. Í kjölfar þess var ákveðið að vernda moskur og aðra samkomustaði múslima en það fór í taugarnar á Musk sem vildi meina að aðgerðir lögreglu væru frekar einhliða – afhverju væri þá ekki verið að vernda kristnar kirkjur til að mynda?

En hægri stefnan virðist henta Musk ágætlega en hann er til dæmis dyggur stuðningsmaður Donald J . Trump sem býður sig fram til forseta Bandaríkjanna. Sá er Repúblikani sem er hægri-flokkurinn vestanhafs og því ætti það ekki að koma á óvart að hann taki upp hanskann fyrir þá sem eru hægra megin í hinu pólitíska litrófi í Bretlandi.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing