Auglýsing

Elva var búin að skrifa kveðjubréf til barna sinna: „Þetta voru þrjár vikur í helvíti“

„Í janúar 2019 var ég búin að eiga einhverja rosastóra djammhelgi og ég var bara komin á þann stað að ég vildi bara enda líf mitt. Ég var búin að skrifa bréf og ætlaði að kveðja. Þá er eins og eitthvað æðra mér hafi stigið inn í líf mitt því það dinglar manneskju á bjölluna heima hjá mér sem hafði aldrei komið heim til mín. Hún spurði hvort það væri ekki í lagi hjá mér því ég væri ekki að svara símanum. Þessi manneskja veit það ekki enn þann dag í dag að hún bjargaði lífinu mínu,“ segir Elva Júlíusdóttir, 44 ára tveggja barna móðir sem hefur séð tímana tvenna. Hún er nýjasti viðmælandi Kiddu Svarfdal í hlaðvarpsþættinum Fullorðins sem hægt er að nálgast á hlaðvarpsveitunni Brotkast.

„…ég útskýrði fyrir þeim að ástæðan fyrir því að ég væri að gráta svona mikið og liði svona svakalega illa væri út af því mig langaði bara að drekka“

Hún var numin á brott af dæmdum barnaníðingi þegar hún var 4 ára, glímdi við námsörðugleika, átröskun og alkóhólisma og segir frá því í hlaðvarpinu hvernig hún vann sig í gegnum hindranirnar. Hér ræðir hún um það þegar hún fékk loksins nóg og sótti um í meðferð. Það var ekki átakalaust.

Börnin stóðu við bakið á henni

„Ég sofna eftir þetta og ég sef alveg í tvo sólarhringa. Þegar ég vakna þá er eitthvað að símanum mínum og ég hringi úr vinnusímanum í bróðir minn, hann er tíu árum yngri en ég og er svona copy/paste af mér. Þarna var hann búinn að vera edrú í tæp fjögur ár. Ég segi við hann að ég held að ég þurfi hjálp. Í rauninni vakna ég um morguninn eins og ég sé lasin og börnin koma upp í rúm til mín með kókglas eða eitthvað. Ég segi við þau að ég þurfi að hætta að drekka – ég ætla í meðferð. Svo fer ég í vinnuna og hringi í bróðir minn. Börnin mín sögðu bara: „Ha, afhverju þarftu að gera það“ – ég útskýrði fyrir þeim að ástæðan fyrir því að ég væri að gráta svona mikið og liði svona svakalega illa væri út af því mig langaði bara að drekka,“ segir Elva en þarna er sonur hennar 19 ára og dóttirin 14 ára.

„Ég held líka bara að óttinn við það að þurfa að fara að horfast í augu við sjálfan mig og vantraustið í minn garð frá sjálfum að ég gæti þetta. Það lét mig fara á þessa svarta staði“

„Þau sögðust bara ætla að styðja mig í því sem ég vildi gera. Ég hringi í bróðir minn og hann bara brotnar niður í símanum og segist hafa beðið eftir þessu símtali í langan tíma. Hann kemur og sækir mig og við förum bara heim og þar bíður mamma með opin faðminn og allir fara að gráta saman. Fallegt móment. Pabbi var reyndar í útlöndum. Þarna fæ ég kraft til að fara á fund með bróður mínum daginn eftir. Ég man bara þegar ég var á fundinum að þá var ég rosalega hrædd og mér var kalt. Eftir fundinn kom fólk til mín og mér fannst ég einhvern veginn tilheyra. Fannst ég skipta máli og einhverjir til í að hlusta á mig. Ekki það að fjölskyldan væri ekki til í það frekar bara að fólk sem skildi mig,“ segir Elva sem þurfti þó að bíða milli heims og helju eftir sínu fyrsta plássi á Vogi.

Þrjár vikur í helvíti á biðlista

„Ég sæki um á mánudeginum á Vogi og þurfti að bíða í þrjár vikur eftir fyrstu meðferðinni. Það voru þrjár vikur í helvíti. Ég ætlaði að vera edrú áður en ég færi í meðferð en ég held að ég hafi aldrei drukkið eins mikið og ég held ég hafi aldrei farið á eins svarta staði og þegar ég var að bíða,“ segir Elva en Kidda minnist þá á það að það sé mikilvægt að þessi hluti sögunnar komi fram enda deyja margir á biðlistanum fræga.

„Ég held líka bara að óttinn við það að þurfa að fara að horfast í augu við sjálfan mig og vantraustið í minn garð frá sjálfum að ég gæti þetta. Það lét mig fara á þessa svarta staði – kvíðinn við tilhugsunina að bregðast þegar ég er búinn að segja við fjölskylduna mína að ég ætlaði að gera eitthvað í mínum málum. Ég átti bara orðið vini sem voru á þessum sama stað. Líka þegar ég labba inn á Vog að þá fæ ég taugaáfall. Vogur greip mig alveg ótrúlega vel og ég fékk alveg besta ráðgjafa sem ég hef hitt á ævinni. Hún átti við mig mjög mannlegt samtal, var sjálf óvirkur alkahólisti og mamma. Samviskubitið var svo rosalegt hjá mér.“

Hér fyrir neðan er stutt brot úr viðtalinu sem hægt er að hlusta á og horfa í fullri lengd með áskrift að Brotkast. Hægt er að næla sér í áskrift með því að smella hér.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing